MINNA brottkast á fiski kemur niður á afkomu sjófugla, samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna. Brottkast á fiski er mikið vandamál í fiskveiðum heimsins en talið er að árlega sé hátt í 30 milljónum tonna hent fyrir borð.
MINNA brottkast á fiski kemur niður á afkomu sjófugla, samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna. Brottkast á fiski er mikið vandamál í fiskveiðum heimsins en talið er að árlega sé hátt í 30 milljónum tonna hent fyrir borð. Greinin hefur löngum legið undir mikilli gagnrýni vegna þessa og víða hefur verið gripið til aðgerða til að draga úr brottkasti. En það eru tvær hliðar á öllum málum. Alþjóðlegur hópur vísindamanna segir í grein sem nýverið birtist í vísindatímaritinu Nature að minnkandi brottkast í kjölfar bættrar fiskveiðistjórnunar valdi miklum skaða meðal sjófugla. Fuglarnir hafi byggt afkomu sína á brottkastinu og nú berjist þeir um þá fáu fiska sem kastað er frá borði. Stærri og sterkari tegundir sjófugla, t.d. skúmar, ráðist á minni fugla og jafnvel drepi þá í baráttunni um bitana. Vísindamennirnir benda reyndar einnig á að stórir sjófuglar á borð við skúminn éti líka umtalsvert af sandsíli en sandsílastofnar hafi verið ofveiddir mjög á undanförnum árum.