Páll Þór Jónsson
Páll Þór Jónsson
INNHEIMTUFYRIRTÆKIÐ Premium ehf. er nú farið að bjóða viðskiptavinum sínum kaup á viðskiptakröfum á rafrænu markaðstorgi.

INNHEIMTUFYRIRTÆKIÐ Premium ehf. er nú farið að bjóða viðskiptavinum sínum kaup á viðskiptakröfum á rafrænu markaðstorgi. Premium hefur fram til þessa boðið upp á innheimtuþjónustu, en nú hefur starfssviðið verið víkkað út með því að dótturfyrirtækið PremiumPlús býður upp á kaup og sölu á viðskiptakröfum, eða það sem kallað hefur verið kröfukaup.

Viðskiptavinir PremiumPlús geta átt viðskipti með kröfur sínar við einn eða fleiri kaupendur á rafrænu markaðstorgi. Að sögn Páls Þórs Jónssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, á kerfið sem notast er við ekki sinn líka hér á landi, enda sé ekki hefð fyrir kröfuviðskiptum í innlendum viðskiptum. Þá sé rafrænt markaðstorg með kröfur einnig nýjung.

Páll Þór segir kröfuviðskipti PremiumPlús byggjast á því að keyra saman samskipti þeirra sem vilji selja kröfur og hinna sem vilji kaupa þær. Eftir að hafa undirritað samninga um viðskiptin við PremiumPlús fái kaupendur og seljendur aðgang að kröfutorgi PremiumPlús sem sé sett upp á lokuðu svæði á Netinu. Þar geti seljendur boðið kröfur til kaups og kaupendur gert kauptilboð. Allt ferlið byggist á þjónustu við báða aðila og kaupendur hafi aðgang að upplýsingum og skilmálum sem seljendur setji fram. Kaupendur geri tilboð í gegnum reiknivél kerfisins, þar sem hægt sé að reikna út ársvexti, afföll og annan kostnað.

Seljendur fái tilboð innan tiltekins tíma og þegar tilboði sé tekið sjái kröfukerfið um að reikna út og millifæra kaupin. Að því búnu sendi það báðum aðilum bókhaldsgögn og skilagreinar sem hægt sé að fá jafnt rafræn sem hefðbundin. Þegar þessu sé lokið fari kröfurnar í innheimtukerfi Premium.

Trygging gegn greiðslufalli

Páll Þór segir að mikilvægur hluti þessara viðskipta sé gagnkvæmt traust. Þess vegna sé mikið lagt upp úr mati á greiðslugetu og lánshæfi seljenda og ekki síður kaupenda krafna. Til að tryggja enn frekar að að kröfuviðskiptin gangi snurðulaust fyrir sig muni Premium einnig bjóða upp á tryggingarvernd gegn greiðslufalli eða tapi á viðskiptakröfum. Þar verði um að ræða nýjung á íslenskum tryggingamarkaði.

Öll innheimta er keyrð í innheimtukerfi Premium, sem beintengt er við bankakerfið. Allir viðskiptavinir eru líka beinlínutengdir og geta í rauntíma fylgst með þróun innheimtu og samskipta við viðskiptavini sína. Að sögn Páls Þórs mun Premium í næsta mánuði tengjast kröfupotti Reiknistofu bankanna og með því muni fleiri möguleikar opnast fyrir þjónustuna.