VEIÐAR Bandaríkjamanna á alaskaufsa hafa verið gjöfular undanfarin ár. Talið er að á síðasta ári hafi aflinn verið um 1,4 milljónir tonna og hafi skilað útgerð og sjómönnum allt að 19 milljörðum króna.

VEIÐAR Bandaríkjamanna á alaskaufsa hafa verið gjöfular undanfarin ár. Talið er að á síðasta ári hafi aflinn verið um 1,4 milljónir tonna og hafi skilað útgerð og sjómönnum allt að 19 milljörðum króna. Veiðar og vinnsla á þessum mest veidda botnfiski veraldar hafa skilað mikum hagnaði undanfarin ár. Þar ræður mestu að veiðistjórnun hefur verið breytt og kappróðrafyrirkomulagið verið lagt til hliðar.

Nú fá útgerðarfélögin úthlutað ákveðinni aflahlutdeild, þau geta sameinað aflaheimildir og kapphlaupið sem fólst í veiðum úr sameiginlegum kvóta heyrir sögunni til. Fyrir vikið eru veiðarnar mun hagkvæmari en áður og hagnaður við veiðar og vinnslu hefur aukizt um allt að 20%.

"Nánast öll fyrirtækin í alaskaufsanum eru að skila um 20% betri afkomu en áður," segir útgerðarmaður frystitogara frá Seattle. "Okkur hefur tekizt af halda þessari afkomu stöðugri ár eftir ár, en slíkt þekktist ekki áður í sjávarútveginum. Það er gott að vera í ufsanum, hagnaður er góður og mikið veitt."

Sjávarbyggðirnar hagnast

Þessi góði gangur kemur einnig strandhéruðum Alaska mjög til góða, því þau hafa fengið 10% allra veiðiheimilda, ekki aðeins í ufsa, heldur öllum veiðum í Beringshafi. Sum sveitarfélögin hafa nýtt sér heimildirnar til að kaupa sig inn í útgerðir frystitogara. Hagnaðurinn af veiðunum skilar sér síðan til byggðanna í formi viðskiptalána, skólastyrkja og annars konar styrkja. Þetta fyrirkomulag hefur þegar skilað 65 sjávarbyggðum sex milljörðum króna.

Deilt um sjálfbærni

Eftir breytinguna eru veiðarnar einnig taldar sjálfbærar. Frá því útlendingum var bannað að stunda þessar veiðar á níunda áratugnum hefur afli Bandaríkjanna verið yfir ein milljón tonna á ári. Því er rætt um að veiðarnar fái umhverfisvottun Marine Stewardship Council. Ýmis umhverfisverndarsamtök eru mótfallin því og kenna þessum veiðum um að stofn Steller sæljóna hefur farið minnkandi. Grænfriðungar undirbúa því verulega herferð gegn MSC, sem þau segja að sé ekkert annað en apparat sem hafi verið stofnað til að hvítþvo sjávarútveginn til hagsbóta fyrir risafyrirtæki eins og Unilever.

Útvegsmenn láta viðbrögð Grænfriðunga sig litlu skipta. Þeir benda á að umhverfisvottunin sé ekkert stórmál fyrir þá og Unilever muni halda áfram að kaupa ufsann af þeim, þar sem Unilever fái hvergi svona mikið af hvítfiski annars staðar.

Rússland og Kína

Alaskaufsinn er veiddur beggja vegna í Beringshafi, en veiðar Rússa, sem áður voru miklu meiri en veiðar Bandaríkjanna, hafa minnkað mjög mikið og á síðasta ári var opinber kvóti Rússa í fyrsta sinn minni en kvóti Bandaríkjanna. Rússar hafa hins vegar veitt mun meira en kvótann. Vegna þessa hefur innflutningur af tvífrystum ufsaflökum frá Kína aukizt gífurlega og á síðasta ári var hann nærri 70.000 tonn.

Stofn alaskaufsa í Beringshafi hefur aldrei verið sterkari. Vísindamenn segja að óhætt sé að veiða allt að 2,5 milljónir tonna af ufsanum ár hvert án þess að það gangi of nærri stofninum. Hins vegar er miðað við það að taka ekki meira en tvær milljónir tonna alls samanlagt af öllum tegundum úr hafinu á hverju ári. Á síðasta ári var ufsakvótinn í Beringshafi ríflega 1,5 milljónir tonna.

Breytt vinnsla

Þar sem markaðurinn fyrir surimi hefur verið slakur, hefur hærra hlutfall ufsans farið í flakavinnslu. Árið 2002 var talið að 63% ufsans hefðu farið í surimi og 37% í flök. Þegar komið var fram á haust var hlutfallið 57% í surimi og 43% í flök. Auk þess hefur framleiðsla á alaskaufsa í blokk aukizt verulega. Framleiðendur í Bandaríkjunum glöddust mikið þegar innflutningur á fiski frá Kína til Evrópusambandsins var bannaður vegna þess að leifar af ólöglegum lyfjum fundust í rækju. Fyrir vikið rauk innflutningur Bandaríkjanna á ufsa til ESB úr 9.000 tonnum í 80.000 tonn. En úti er ævintýri. Kínverjar hafa fengið innflutningsleyfi til ESB á ný og um mitt þetta ár hafði innflutningur á ufsa frá Bandaríkjunum fallið um 21% miðað við sama tíma árið áður. Innflutningur til Þýzkalands hafði til dæmis fallið úr 19.000 tonnum niður í 13.000 tonn. Afnám innflutningsbannsins til ESB leiddi svo aftur til þess að innflutningur á tvífrystum ufsa frá Kína til Bandaríkjanna dróst saman um 13% og var um 38.000 tonn.

Aukið framboð vestan hafs

Að öllu þessu athuguðu er gert ráð fyrir að framboð á alaskaufsa í Bandaríkjunum aukist verulega og um svokallaðan kaupendamarkað verði að ræða.

Afkoma í veiðum og vinnslu á alaskaufsa hefur ekki verið eins góð og áður. Ein skýringin er lágt verð á surimi vegna þess að Japanir hafa aukið innflutning á ódýru surimi frá Suðaustur-Asíu verulega. Á síðasta ári féll verð á surimi í Japan úr 320 yenum á kíló í 276 yen á kíló í september.

Heimild: Seafood Business