Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri Skeljungs.
Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri Skeljungs.
Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri Skeljungs, segir að frá því að breytingar urðu í eignarhaldi félagsins síðasta sumar hafi verið unnið að því að straumlínulaga reksturinn, selja þær einingar sem ekki tengist honum beint.

Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri Skeljungs, segir að frá því að breytingar urðu í eignarhaldi félagsins síðasta sumar hafi verið unnið að því að straumlínulaga reksturinn, selja þær einingar sem ekki tengist honum beint. Sú vinna hafi verið fyrir löngu orðin tímabær og sé nú að mestu yfirstaðin. Hann segir að félagið hafi aldrei verið sterkara en nú. "Við höfum kosið að losa um töluvert af hlutabréfum og öðrum eignum sem ekki tengjast rekstrinum með beinum hætti. Söluandvirði þeirra eigna sem seldar hafa verið hefur ekki verið ráðstafað, og efnahagur félagsins aldrei verið traustari en í dag."

Hvernig verður söluandvirðinu ráðstafað?

"Það er nýrra eigenda að ákveða það."

Hvaða breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi á síðustu mánuðum?

"Það hefur orðið töluverð fækkun hjá okkur bæði á skrifstofum og úti á stöðvunum. Fækkunina má að hluta til rekja til breyttra áherslna í rekstrinum en einnig til þess að hlutur sjálfsafgreiðslu á stöðvunum hefur verið að aukast. Á skrifstofunni hefur verið fækkað um 20 manns, en þar starfa nú um það bil 50 manns í dag."

Verður starfsmönnum fækkað frekar?

"Þær róttæku breytingar sem við höfum verið að gera á starfseminni að undanförnu eru að mestu um garð gengnar og ég geri því ekki ráð fyrir meiri háttar breytingum að sinni."

Er búið að selja alla húseignina á Suðurlandsbrautinni?

"Við erum búnir að selja stærsta hlutann af núverandi húsnæði og það á bara eftir að ganga frá sölunni á síðasta hlutanum. Það mun væntanlega gerast fljótlega, enda hafa margir sýnt húsnæðinu áhuga. Skeljungur flytur síðan í nýtt húsnæði í Örfirisey í júní nk."

Þið eruð búin að vera í húsinu í liðlega 40 ár, er ekkert erfitt að fara? "Fyrir mig eins og sjálfsagt flesta starfsmenn á skrifstofu félagsins er þetta skrýtin tilfinning, en sjálfur er ég búinn að vera hér í 16 ár. Ég verð ekki var við annað en að þetta mælist ágætlega fyrir hjá starfsmönnum, enda erum við að flytja í mjög góða og nútímalega aðstöðu sem mun henta okkur mun betur. Þar komumst við fyrir á einni hæð en höfum verið á fjórum hæðum hingað til."

Eru fleiri húseignir ykkar til sölu?

"Nei, við höfum selt þær eignir sem ekki tengjast rekstrinum og það stendur ekki til að selja rekstrartengdar eignir."

Hvaða stefnu hafið þið til framtíðar, er einhver möguleiki fyrir félagið að ná aukinni markaðshlutdeild í olíu á Íslandi?

"Við einsetjum okkur að vera með hagkvæmari rekstur meðal annars með því að lækka tilkostnað og halda honum í lágmarki. Aðalatriðið er að tryggja samkeppnisstöðu okkar. Vaxtarmöguleikarnir í dag liggja ekki á eldsneytismarkaðinum hér innanlands. Við erum aftur á móti með ýmsa aðra vaxtarbrodda sem við munum hlú að og má nefna sem dæmi verslunarrekstur á Selectstöðvum okkar. Þá höfum við verið að sækja inn á hráefnamarkaðinn, meðal annars með innflutningi á plasthráefnum og fleiru. Þessir þættir og fleiri hafa verið að vaxa vel hjá okkur."

Hvernig líst þér á nýja eigendur félagsins? Heldurðu að frekari breytingar séu fram undan hjá félaginu?

"Við erum búin að ganga í gegnum miklar breytingar á síðustu mánuðum og ég geri ráð fyrir að það verði áfram breytingar á okkar rekstri. Ég tel að við séum á réttri braut. Það er mjög gott fyrir okkur að fá endanlega niðurstöðu og festu í eignarhaldið. Félagið er búið að vera lengi í óvissu sem er að mörgu leyti erfitt. Menn eru mjög ánægðir með að niðurstaða er fengin og þau stuttu kynni sem ég hef haft af nýjum eigendum hafa verið ánægjuleg í alla staði."

Hefur óvissan haft áhrif á starfsfólkið?

"Hún gerir það óhjákvæmilega en nú er hún að baki og við getum einbeitt okkur að því sem fram undan er."

Nú eruð þið búin að selja frá ykkur ýmislegt sem ekki tengist kjarna starfseminnar. Eruð þið komin að endimörkunum í þeim efnum?

"Við erum komin vel á veg með það sem við ætluðum okkur. Við höfum notað þau tækifæri sem hafa gefist til að létta á eignum og munum halda áfram að hafa þau mál til skoðunar eftir því sem ástæða og tilefni þykja til á hverjum tíma. Það er hins vegar ekkert sem rekur á eftir okkur í þeim efnum núna."

Hvar liggja sóknarfæri félagsins?

"Í dag erum við að einbeita okkur að kjarnastarfseminni sem er rekstur olíufélagsins. Félagið er hins vegar mjög sterkt og hefur mikla burði til að hasla sér völl á öðrum vettvangi ef tækifæri gefast. Þennan styrk munum við nýta okkur."

Hve stórt er félagið í samanburði við Esso og Olís?

"Við höfum fjögur ár í röð verið með hæstu markaðshlutdeild á eldsneytismarkaðnum. Viðskiptavinahópur okkar er hins vegar nokkuð frábrugðinn hinna félaganna þar sem okkar styrkur er mestur á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýliskjörnum víða um land."

Hverju skipti það fyrir félagið að Shell Petrolium Ltd. seldi allan 20,7% eignarhlut sinn í félaginu síðasta sumar?

"Það hafði engar umtalsverðar breytingar í för með sér. Þeir höfðu aldrei bein afskipti af rekstrinum og sóttust ekki eftir að hafa mann í stjórn þrátt fyrir að hafa lengst af verið stærsti hluthafinn í félaginu.

Við þurfum eftir sem áður að uppfylla ákveðin skilyrði sem þeir setja, til að starfa undir þeirra merkjum hér á Íslandi."

En hvað með eignatengsl félagsins við Sjóvá, Eimskip og Flugleiðir sem nú eru farin, hefur það haft áhrif á félagið?

"Nei, við höfum ekki orðið vör við það, enda hafa öll viðskipti tengd þessum félögum eins og öðrum verið á viðskiptalegum forsendum."