Sveinn Hannesson
Sveinn Hannesson
SVEINN Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í leiðara Íslensks iðnaðar, að hér á landi sé landlægt að fyrirtæki séu rekin árum saman þó að þau séu í reynd löngu orðin gjaldþrota.

SVEINN Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í leiðara Íslensks iðnaðar, að hér á landi sé landlægt að fyrirtæki séu rekin árum saman þó að þau séu í reynd löngu orðin gjaldþrota. Segist hann fagna nýlegum dómi um ábyrgð stjórnarmanna í fyrirtæki sem hélt áfram að kaupa inn vörur sem það sýnilega gat aldrei borgað.

"Allir vita að áhætta fylgir atvinnurekstri. Það er einmitt álitinn sérstakur kostur í efnahagslegu tilliti ef frumkvöðlar eru margir og ríkur áhugi er á að ráðast í eigin atvinnurekstur. Ekki geta allir orðið ofan á í hörðum slag í grimmri samkeppni. Ameríkanar líkja samkeppninni við stríðsátök og tala með virðingu um þá stríðsmenn í viðskiptum sem bera ör á andliti. Það eru þeir sem hafa farið á hausinn en neita að gefast upp og hafa á endanum komið undir sig fótunum og náð settu marki," að því er fram kemur í leiðara Íslensks iðnaðar.

Seljandi réttlaus

Sveinn gerir breytingar á veðlögum að umtalsefni í leiðaranum.

"Fyrir nokkrum árum voru gerðar breytingar á löngu úreltum veðlögum. Meginbreytingin er sú að nú er auðveldara en áður að taka veð í öðrum eignum en fastafjármunum. Mestu skiptir að nú er hægt að taka veð í ótilgreindu safni eigna á borð við viðskiptakröfur og birgðir almennt. Þegar hallar undan fæti er það fremur regla en undantekning að lánastofnanir eigi veð í öllum slíkum eignum viðkomandi fyrirtækis. Þess vegna er það lánastofnunum iðulega í hag að halda áfram rekstrinum meðan kostur er. Um leið og ný vörukaup eru komin í hús er sendingin veðsett lánastofnuninni en seljandi réttlaus. Á sama hátt er krafa vegna seldrar vöru eða þjónustu veðsett lánastofnun um leið og viðskiptin hafa farið fram. Það er erfitt að keppa við fyrirtæki sem eru rekin á þessum forsendum með stöðugum undirboðum og rugli til þess eins að fleyta sér áfram nokkra daga í viðbót.

Þess eru einnig æ fleiri dæmi að fyrirtæki virðast gerð gjaldþrota í góðri samvinnu við eigin lánastofnun. Þetta gerist þannig að fyrirtæki halda áfram starfsemi eins og ekkert hafi í skorist. Sumir hafa ekki fyrir því að skipta um nafn eða símanúmer. Forráðamenn eru hinir sömu og ekki virðist neitt vandamál að hefja bankaviðskipti þar sem frá var horfið," að því er fram kemur í leiðara Íslensks iðnaðar.

Viðskiptaaðilar tapa

Segir í leiðaranum að oft sé þannig að lánastofnanir bæti stöðu sína með vel útfærðu gjaldþroti eigin viðskiptamanna. "Skyndilega eru allar aðrar skuldir horfnar og möguleikar skuldarans til að standa skil á lánunum eru þeim mun betri en áður. Það er auðvitað nærtækt að hækka vaxtaálagið ríflega í þessari stöðu. En hverjir tapa á þessum gjaldþrotum? Það eru viðskiptaaðilar þessara fyrirtækja, kaupendur og seljendur vöru og þjónustu. Sérstaklega eru hagsmunir undirverktaka léttvægir fundnir. Þó að verkkaupar krefjist verkábyrgða af aðalverktaka er nær óþekkt að hið sama gildi um undirverktaka. Þess vegna gerist það að afturgengin verktakafyrirtæki halda áfram með verk eftir gjaldþrot í skjóli opinberra aðila og lánastofnunar en undirverktökum er varpað á dyr og fá ekkert upp í sínar kröfur," segir enn fremur í leiðara Íslensks iðnaðar.