SPARISJÓÐUR Vestfirðinga tapaði 27 milljónum króna í fyrra, en árið 2002 var 10 milljóna króna hagnaður af rekstrinum. Arðsemi eigin fjár var í fyrra neikvæð um 4,3% en jákvæð um 1,6% árið áður.

SPARISJÓÐUR Vestfirðinga tapaði 27 milljónum króna í fyrra, en árið 2002 var 10 milljóna króna hagnaður af rekstrinum. Arðsemi eigin fjár var í fyrra neikvæð um 4,3% en jákvæð um 1,6% árið áður.

Hreinar vaxtatekjur sparisjóðsins minnkuðu um 12% og námu 274 milljónum króna og vaxtamunur var 4,0% og lækkaði úr 4,7% milli ára. Aðrar rekstrartekjur jukust um 89% og námu 223 milljónum króna. Þar munar mest um gengishagnað sem hækkaði um 72 milljónir króna og nam 78 milljónum króna. Önnur rekstrargjöld hækkuðu um 9% og námu 311 milljónum króna. Kostnaðarhlutfall sparisjóðsins, rekstrargjöld sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum, lækkaði úr 67% í 63% milli ára. Framlag í afskriftareikning útlána hækkaði úr 132 milljónum króna í 222 milljónir króna, sem á stærstan þátt í að skýra versnandi afkomu milli ára. Framlag í afskriftareikning nam 4,0% af útlánum, en árið áður var þetta hlutfall 2,5%. Í tilkynningu frá sparisjóðnum segir að rekstrarumhverfið hafi verið honum erfitt á liðnu ári og framlag í afskriftareikning hafi verið mun meira en gert hafi verið ráð fyrir.

Eignir Sparisjóðs Vestfirðinga jukust um 2% milli ára og námu 6,9 milljörðum króna um síðustu áramót. Innlánsaukning var 5,0% og útlánaaukning 3,8%. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum var um áramót 11,7%, en var 9,9% ári fyrr.