Svo kann að fara að af sex helstu iðnríkjum heims í dag verði aðeins tvö, Bandaríkin og Japan, á meðal sex stærstu hagkerfanna árið 2050.

Svo kann að fara að af sex helstu iðnríkjum heims í dag verði aðeins tvö, Bandaríkin og Japan, á meðal sex stærstu hagkerfanna árið 2050. Hin fjögur, Bretland, Þýskaland, Frakkland og Ítalía, verða ef til vill orðin minni en Kína, Indland, Rússland og Brasilía. Þetta er niðurstaða skýrslu sem unnin var hjá Goldman Sachs síðastliðið haust og hefur vakið talsverða athygli. Höfundar skýrslunnar nota nýjustu spár um fólksfjölgun og meta fjárfestingar, framleiðni, hagvöxt, tekjur á mann og þróun gengis fram til ársins 2050.

Verði þessum fjórum hagkerfum sköpuð hagstæð skilyrði og þau verða ekki fyrir ytri áföllum verður ólíkt umhorfs í efnahagsmálum heimsins um miðja öldina en nú er. Og raunar þarf ekki að bíða svo lengi eftir að áþreifanlegra breytinga verði vart. Aukning neyslu, í Bandaríkjadölum talið, í ríkjunum fjórum verður þegar árið 2009 orðin meiri en í stóru iðnríkjunum sex, G6. Eftir 40 ár verða samanlögð hagkerfi þessara fjögurra ríkja stærri en samanlögð hagkerfi G6-ríkjanna, gangi spárnar eftir, en nú er stærð þessara hagkerfa innan við 15% af stærð hagkerfa G6-ríkjanna.

Samkvæmt skýrslunni munu um 2/3 aukningarinnar hjá ríkjunum fjórum í dölum talið stafa af hagvexti, en hækkað gengi gjaldmiðla þeirra mun skýra þriðjunginn. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að gengi gjaldmiðla ríkjanna fjögurra geti hækkað um 300% fram til ársins 2050.

Ein af forsendum spárinnar er að ríkin fjögur, Kína, Indland, Rússland og Brasilía, framfylgi efnahagsstefnu sem sé hagstæð hagvexti, en skýrsluhöfundar gera sér fulla grein fyrir að alls óvíst er að þetta muni ganga eftir. En hver eru skilyrði vaxtarins að áliti skýrsluhöfunda?

Stöðugleiki í efnahagsmálum er nauðsynlegur, því að óstöðugleiki getur dregið úr vexti með því að trufla verðmyndun og minnka líkurnar á því að fólk taki réttar ákvarðanir. Þess vegna er lögð áhersla á stöðugt verðlag, með minnkandi fjárlagahalla, aðhaldssamari peningastefnu og gengisaðlögun. Ríkin fjögur hafa átt í nokkrum erfiðleikum með að uppfylla skilyrðin um stöðugleika, en skilningur á nauðsyn þess fer líklega vaxandi.

Stofnanir samfélagsins þurfa að virka vel, en með stofnunum er hér átt við fyrirbæri á borð við lagakerfið, markaði, heilbrigðis- og menntakerfi, fjármálakerfi og starfsemi hins opinbera.

Hagkerfið þarf að vera opið fyrir viðskiptum við útlönd, því að almennt sýna rannsóknir að opnari hagkerfi vaxa hraðar og framleiðni í þeim eykst hraðar en í lokaðri hagkerfum.

Loks þurfa ríki með ört vaxandi hagkerfi að leggja áherslu á menntun til að hafa nægt framboð hæfra starfsmanna.

Það stefnir þess vegna í að litlu fámennu ríkin í Norðurálfu verði líka innan skamms minni í efnahagslegum skilningi en stóru fjölmennu ríkin. Íbúarnir þar þurfa þó ekki að örvænta, því að þeir verða enn, hver um sig, ríkari en nú er. Og þeir verða áfram ríkari en íbúar nýju risanna. Munurinn minnkar hins vegar og þess vegna dragast hagkerfin í heild sinni aftur úr hraðar vaxandi og fjölmennari hagkerfum.

haraldurj@mbl.is