SAGA EJS er að nokkru dæmigerð fyrir íslensk fyrirtæki á hugbúnaðarmarkaði þó á svo smáum markaði sé munur milli fyrirtækja jafnan meiri en hjá milljónaþjóðum.

SAGA EJS er að nokkru dæmigerð fyrir íslensk fyrirtæki á hugbúnaðarmarkaði þó á svo smáum markaði sé munur milli fyrirtækja jafnan meiri en hjá milljónaþjóðum. EJS var gróið fyrirtæki í upplýsingaiðnaði með traust umboð á vélbúnaði fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem sneri sér í æ meira mæli að hugbúnaðargerð og var um tíma mjög umsvifamikið erlendis af íslensku fyrirtæki að vera. Eftir rekstrarerfiðleika og gagngera endurskipulagningu er EJS enn traust fyrirtæki en nú með breyttar áherslur og fjöldi undirfyrirtækja sem stofnuð voru hefur nú verið seldur og sum þeirra lögð niður.

Stofnað 1939

EJS var stofnað af Einari J. Skúlasyni sem viðgerðarverkstæði í Reykjavík 1939. Smám saman jók það við starfsemi sína og tók að selja ýmsan skrifstofubúnað og varð meðal annars umboðsaðili fyrir bókhalds- og afgreiðsluvélar frá þýska fyrirtækinu Kienzle 1955. Árið 1981 efndu íslenskir bankar til sameiginlegs útboðs á tengingu bankaútibúa við Reiknistofu bankanna. EJS fékk það verkefni með Kienzle-tölvubúnað og 1983 var sett upp Hugbúnaðardeild EJS til að sinna verkefninu.

EJS var gert að hlutafélagi 1984 og 1985 seldi Einar J. Skúlason fyrirtækið til fjögurra starfsmanna. Á árinu 1986 hóf EJS sölu á Victor-einmenningstölvum og síðar einnig Sun-vélbúnaði, Palm-lófatölvum, AST-einmenningstölvum og vörum fleiri framleiðenda.

Útflutningur hefst

Hagkaup efndu til tölvuútboðs 1991 og varð EJS fyrir valinu í samstarfi við bandarísku fyrirtækin NCR og AST, en Retailer 1-hugbúnaður frá NCR var valinn sem vörustjórnunarkerfi Hagkaupa. Árið 1993 seldi EJS MMDS-hugbúnað (Merchandise Management Database System), útgáfu af Retailer 1, til danskra kaupfélaga og síðan til 7-11-verslanakeðjunnar í Hong Kong 1995.

Starfsmönnum EJS var boðið að kaupa hlut í fyrirtækinu 1999 og sama ár keypti EJS Hug hf. og helming í Gæðamiðlun. Þá var um fimmtungur af veltu fyrirtækisins vegna starfsemi erlendis, um 500 milljónir króna.

Ári síðar, árið 2000, stóð EJS síðan að stofnun fyrirtækjanna Hýsingar, Klakka, Mekka og iPRO, ýmist einn eða í samstarfi við aðra. Þá var fyrirtækið samstæða EJS og EJS International, með um 200 starfsmenn, og átta annarra fyrirtækja sem EJS-samstæðan átti sum að fullu en önnur að hluta. Alls starfaði á fjórða hundrað manns hjá samstæðunni. Það ár varð samdráttur í erlendum viðskiptum samstæðunnar, en einnig var talsverðu fé, um 200 milljónum króna, varið í að endurskrifa þann hugbúnað sem fyrirtækið seldi erlendis.

Minnkandi eigið fé

Þrátt fyrir miklar væntingar stjórnenda fyrirtækisins og að því er virtist álitlega samninga við erlend fyrirtæki, ýmist um sölu eða samstarf, fór EJS ekki varhluta af þeim samdrætti sem gekk yfir heiminn og þá ekki bara á sviði upplýsingatækni. Fyrirtækið hafði vaxið hratt og hafði ekki burði til að standa af sér krepputíð. Eigið fé félagsins fór úr 1.185 milljónum króna árið 1999 í 478 milljónir 2001 og niður í 28 milljónir króna 2002.

Þrengingar í rekstri og deilur eigenda um stjórnun á félaginu urðu til þess að þrisvar var skipt um stjórn á síðustu þremur árum, en nýir eigendur tóku síðan við fyrirtækinu síðastliðið haust og í kjölfarið var farið út í gagngera endurskipulagningu. Eftir hana er EJS-samstæðan EJS hf. og Hýsing hf. Önnur félög voru seld eða felld inn í EJS hf. Hugbúnaðardeild EJS var sameinuð Hug á árinu 2002, en Hugur var svo seldur Kögun hf. sl. haust, starfsemi iPro var hætt, EJS Group var sameinað EJS hf. og starfsstöð félagsins erlendis verður seld. Starfsmenn EJS hf. eru nú ríflega 90.

Nýir stjórnendur hafa markað þá stefnu að fyrirtækið einbeiti sér að kjarnastarfsemi, en hætti öllum afskiptum af hugbúnaðargerð. Eftir stendur traust fyrirtæki sem hefur alla burði til að ná árangri á íslenskum markaði en lokið sögu mikilla fjárfestinga og bjartsýni um árangur erlendis og um leið sögu brostinna vona.