TVÆR meginástæður eru fyrir því að það var talinn betri kostur að byggja Landspítala - háskólasjúkrahús upp við Hringbraut, en ekki í Fossvogi, að sögn Ingólfs Þórissonar, framkvæmdastjóra tækni og eigna LSH.

TVÆR meginástæður eru fyrir því að það var talinn betri kostur að byggja Landspítala - háskólasjúkrahús upp við Hringbraut, en ekki í Fossvogi, að sögn Ingólfs Þórissonar, framkvæmdastjóra tækni og eigna LSH. Annars vegar hefur spítalinn tvöfalt meira húsnæði við Hringbraut en í Fossvogi í dag og annars vegar var nálægð við Háskóla Íslands talin mikilvæg. Þá segir Ingólfur að fleiri ástæður séu fyrir færslu Hringbrautar en þörf sjúkrahússins fyrir byggingarland.

Í Morgunblaðinu í vikunni var grein eftir Stein Jónsson lækni, þar sem hann sagðist telja það betri kost að byggja LSH upp í Fossvogi til að koma allri bráðaþjónustu spítalans undir eitt þak. Þá þyrfti ekki að færa Hringbrautina í bili, hægt væri að halda barna-, kvenna- og geðdeildum við Hringbraut og nýta það húsnæði sem myndi losna fyrir hjúkrunar- og öldrunarþjónustu.

Ingibjargarnefnd mælti með Hringbraut

"Þetta var allt saman skoðað vel á árunum 2001-2002 þegar svokölluð Ingibjargarnefnd, undir forsæti Ingibjargar Pálmadóttur, fór í mjög nákvæma greiningu á möguleikum á staðarvali á spítalanum. Við vorum þar með danska, sænska og íslenska ráðgjafa til að meta þetta fyrir okkur og það var niðurstaða nefndarinnar, að það væri skynsamlegast að byggja upp við Hringbraut," segir Ingólfur.

Þyngstu rökin séu meira byggingarmagn á Hringbrautarlóðinni en í Fossvogi, sem og nálægðin við Háskóla Íslands sem geri mögulegt að tengja starfsemi LSH og HÍ betur saman. Nefnir Ingólfur að Háskólinn sé að skoða byggingu Lífvísindaseturs á Umferðarmiðstöðvarreitnum þar sem náttúruvísindi sem tengjast læknisfræði, myndu fá húsnæði til rannsókna.

"Ástæður fyrir flutningi Hringbrautar eru fleiri en þörf spítalans fyrir meira landrými, en flutningur Hringbrautar er engu að síður mikilvægur fyrir spítalann til að fá meira landrými. Það er þó ekki eina ástæðan, þetta er langur ferill og mikið búið að skoða og skeggræða í þessu. Þó spítalinn myndi, eins og Steinn er að leggja til, byggjast upp í Fossvogi, geri ég ráð fyrir að það þyrfti að flytja Hringbrautina eftir sem áður," segir Ingólfur og bætir við að á næstu dögum standi til að auglýsa útboð fyrir verkið. Í grein sinni nefndi Steinn að dönsku ráðgjafarnir hafi mælt með uppbyggingu í Fossvogi og talið að það mætti nýta það húsnæði áfram í nokkra áratugi. Ingólfur segir að hlutverk dönsku ráðgjafanna hafi fyrst og fremst verið að spá fyrir um þróun starfsemi spítalans. "Það eru kostir og gallar við alla þá möguleika sem voru skoðaðir," segir Ingólfur, en auk Fossvogs og Hringbrautar var skoðaður sá kostur að flytja meginþunga starfseminnar að Vífilsstöðum. "Allir staðirnir hafa eitthvað sér til ágætis, en það var niðurstaða nefndarinnar að Hringbrautin væri skynsamlegasti kosturinn. Það hefur verið kynnt fyrir ráðherra sem er búinn að gera það að sinni tillögu, þannig að það er stefnan," segir Ingólfur.