KANADÍSKA sjávarútvegsfyrirtækið Fishery Product International Ltd. (FPI) hagnaðist um 1,7 milljónir kanadadollara á síðasta ári eða sem nemur um 87 milljónum íslenskra króna. Hagnaður fyrirtækisins á árinu 2002 nam um 14 milljónum dollara.

KANADÍSKA sjávarútvegsfyrirtækið Fishery Product International Ltd. (FPI) hagnaðist um 1,7 milljónir kanadadollara á síðasta ári eða sem nemur um 87 milljónum íslenskra króna. Hagnaður fyrirtækisins á árinu 2002 nam um 14 milljónum dollara. FPI seldi afurðir fyrir um 758,9 milljónir kanadískra dollara á síðasta ári eða sem samsvarar nærri 39 milljörðum íslenskra króna. Þetta er 5,4% söluaukning frá árinu 2002 og hefur aldrei verið meiri. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. á 14% hlut í FPI. Haft er eftir Derrick Rowe, forstjóra FPI, að þessi árangur sé sérstaklega ánægjulegur í ljósi þess að kanadadollar styrktist um rúm 22% á síðasta ári. Bandaríkin eru langstærsti markaður FPI og segir Rowe slæmt efnahagsástand í Bandaríkjunum hafa gert fyrirtækinu erfitt fyrir, einkanlega á fyrri hluta ársins.

FPI hefur unnið að endurnýjun bæði verksmiðja og fiskiskipa sinna á undanförnum mánuðum, úrelti eða seldi t.d. 11 togara á síðustu þremur mánuðum síðasta árs og keypti nýrri og betri skip. Rowe gerir ráð fyrir aukinni framleiðslu og lægri framleiðslukostnaði í kjölfar endurnýjunarinnar.