"Uppreisn frjálshyggjunnar - ekki nema það þó. Er ekki nóg, að öll möguleg samtök, þjóðir og þjóðflokkar geri uppreisnir? Þarf frjálshyggjan nú að feta slóð uppreisnarmanna?

"Uppreisn frjálshyggjunnar - ekki nema það þó. Er ekki nóg, að öll möguleg samtök, þjóðir og þjóðflokkar geri uppreisnir? Þarf frjálshyggjan nú að feta slóð uppreisnarmanna? Við, sem stöndum að þessari bók, teljum uppreisn frjálshyggjunnar ekki aðeins sjálfsagða og nauðsynlega, heldur grundvöll gróandi þjóðlífs og framfara í andlegum og veraldlegum efnum. Það er löngu tímabært að snúa sókn kommúnista og annarra afturhaldsmanna á Íslandi í vörn. Hatursróginn gegn frjálsu framtaki og athafnalífi verður að kveða niður. Hugmyndafræði öfundarinnar hefur of lengi ráðið of miklu í samskiptum manna á Íslandi bæði á vinnumarkaðnum og í menningarlífinu. Lánist mönnum ekki að skilja þau órjúfandi bönd, sem hnýta saman frelsi athafnamannsins til framkvæmda og listamannsins til sköpunar, er ekki von til þess, að Ísland verði áfram í hópi þeirra allt of fáu landa, sem búa börnum sínum í senn ríki mannhelgi, mannúðar, framkvæmda og framfara."

Kjartan Gunnarsson í Uppreisn frjálshyggjunnar sem hann gaf út árið 1979.