LHASA/The Living Road Mikil og merkileg uppgötvun fyrir mann, þessi 31 árs gamla mexíkóska-bandaríska-kanadíska tónlistarkona.

LHASA/The Living Road

Mikil og merkileg uppgötvun fyrir mann, þessi 31 árs gamla mexíkóska-bandaríska-kanadíska tónlistarkona. Ekkert skrýtið að hún sé að ná til eyrna fólks með þessari annarri plötu sinni því hún er aldeilis magnaður seiður sem satt best að segja er erfitt að lýsa svo vel sé. Þetta er heimstónlist, svo mikið er víst, og hún er grípandi. Ræturnar eru klárlega suðrænar, mexíkóskar eins og gefur að skilja, en það segir ekki einu sinni hálfa söguna því áhrifin sem greina má eru ómælandi mörg og úr öllum áttum. Þetta er tilgerðarleg samlíking, vissulega, en það er eins og hin víðförla Lhasa De Sela leiði mann í ferðalag um heiminn sem á sér endastöð á mettuðu kaffihúsi í öngstræti í París, djassinn og blúsinn ómar í grunninn

(Billie Holiday er helsta átrúnaðargoð Lhösu), Almodovar-mynd uppi á tjaldinu og ilmandi indverskur matur í boði. Þannig minnir Lhasa mann stundum á hina lítt þekktu en frábæru bresku og indverskættuðu Susheela Raman sem tekist hefur með ævintýralegri útkomu að sameina indverska arfinn einhvers konar breskum djassi.

Frábær plata sem höfðar til miklu fleiri en ætla mætti í fyrstu. &sstar;&sstar;&sstar;&sstar;&sstar;

Skarphéðinn Guðmundsson