FRÆÐSLUNEFND Náttúrulækningafélags Íslands hélt á dögunum málþing sem bar yfirskriftina Erfðabreyttar afurðir. Mörg fróðleg erindi voru flutt þriðjudagskvöldið 27. janúar á Hótel Loftleiðum og spunnust líflegar og athyglisverðar umræður í kjölfarið.

FRÆÐSLUNEFND Náttúrulækningafélags Íslands hélt á dögunum málþing sem bar yfirskriftina Erfðabreyttar afurðir.

Mörg fróðleg erindi voru flutt þriðjudagskvöldið 27. janúar á Hótel Loftleiðum og spunnust líflegar og athyglisverðar umræður í kjölfarið.

Fræðslunefnd NLFÍ hefur staðið fyrir málþingum um ýmis málefni sem jafnan hafa vakið athygli almennings og fengið umfjöllun í blöðum og öðrum fölmiðlum. Má þar nefna málþing um ruslfæði, fæðubótarefni, lækningamátt jurta, skammdegisþunglyndi, streitu, offitu og lífsgleði. Frummælendur þetta kvöld voru Jónína Þ. Stefánsdóttir matvælafræðingur, Þórður G. Halldórsson garðyrkjubóndi, Einar Mäntylä plöntuerfðafræðingur og Gunnar Á. Gunnarsson framkvæmdastjóri.

Erindin verður hægt að lesa á heimasíðu Náttúrulækningafélags Íslands, www. heilsuvernd.is Auk frummælenda sátu Bjarni Guðleifsson plöntulífeðlisfræðingur og Björn Sigurbjörnsson erfðafræðingur fyrir svörum í umræðunum. Innihaldi þessarar umræðu voru gerð góð skil í dagskrárritinu Birtu, fylgiriti Fréttablaðsins, sem kom út 6. febrúar 2004.

Svo virðist sem himinn og haf skilji að sjónarmið þeirra sem eru hlynntir erfðabreyttum afurðum og þeirra sem eru andvígir. Vísindalegar rannsóknir virðast ekki geta sætt þessi sjónarmið.

Lítið hefur farið fyrir umræðu um erfðabreytt matvæli hér á landi og er það einkennilegt miðað við það sem farið hefur fram í Bretlandi og víðar í Evrópu. Einhverjir urðu varir við umræðu síðastliðið sumar, þegar Orf - Líftækni hóf ræktun á erfðabreyttu byggi til lyfjaframleiðslu hér á landi. Færri vita hins vegar að talið er að 70% matvæla í hillum verslana í Bandaríkjunum innihalda mismunandi magn af erfðabreyttum afurðum. Íslendingar flytja inn töluvert af afurðum frá Bandaríkjunum og á þessum vörum eru engar upplýsingar um hvort þær innihaldi erfðabreyttar afurðir eða ekki. Við undrumst hvers vegna engin löggjöf er til hér landi um merkingar erfðabreyttra matvæla Við veltum fyrir okkur hverra hlutverk það er að upplýsa almenning. Hefur neytandinn ekkert val?

Hvert vilja Íslendingar stefna í þessum málum? Hefur notkun erfðabreyttra afurða til ræktunar hér á landi áhrif á ímynd Íslands sem hreint og ómengað land?

Umræðan er hafin og viljum við hvetja landsmenn, lærða og leika, til að kynna sér málið og segja sitt álit.

FRÆÐSLUNEFND

Náttúrulækningafélags Íslands.

Frá Fræðslunefnd Náttúrulækningafélags Íslands: