MAGNÚS Ragnarsson, framkvæmdastjóri SkjásEins, segir að sjónvarpsstöðin hafi ætíð boðið upp á mikið af innlendri dagskrárgerð og efni hafi verið keypt af framleiðendum utanhúss.

MAGNÚS Ragnarsson, framkvæmdastjóri SkjásEins, segir að sjónvarpsstöðin hafi ætíð boðið upp á mikið af innlendri dagskrárgerð og efni hafi verið keypt af framleiðendum utanhúss. Því sé það ekki rétt sem stjórn Félags kvikmyndagerðarmanna hafi haldið fram í ályktun að RÚV sé eini raunhæfi innlendi vettvangur kvikmyndagerðarmanna til að fá verkefni sín birt og fjármögnuð.

"Sannleikurinn er sá að við erum að láta framleiða tvær þáttaraðir utan hússins. Þeir tveir eru að framleiða þáttaröð sem heitir "Landsins snjallasti" og við vorum að kaupa þáttaröð sem heitir "Ljúfa Frakkland" af Landmark kvikmyndagerð. Að auki erum við í viðræðum við tvo aðila í viðbót af þessum framleiðslufyrirtækjum um gerð íslensks dagskrárefnis fyrir okkur. Þannig að við erum á fullu í þessu," segir Magnús.

Í umræddri ályktun kvikmyndagerðarmanna var harmað að Ríkissjónvarpið hafi ákveðið að kaupa ekki meira af innlendu dagskrárefni á þessu ári frá framleiðendum utan stofnunarinnar. "Við erum hissa á því í rauninni að menningarstöðin RÚV geti ekki staðið betur að íslenskri dagskrárgerð meðan þeir hafa peninga til að keppa við okkur í innkaupum á erlendu afþreyingarefni," segir Magnús.

Hann bendir á að hlutverk RÚV sé mjög vel skilgreint í útvarpslögum.