Guðrún Níelsen segir viðburð á borð við leikdag aldraðra mjög gefandi. "Það er bæði líkamlegt og andlegt. Félagsskapurinn spilar þarna 50% inn í, að æfa svona saman. Þetta tengir fólk og gleður - og reynir á líkamann," segir Guðrún.
Guðrún Níelsen segir viðburð á borð við leikdag aldraðra mjög gefandi. "Það er bæði líkamlegt og andlegt. Félagsskapurinn spilar þarna 50% inn í, að æfa svona saman. Þetta tengir fólk og gleður - og reynir á líkamann," segir Guðrún. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SLÆÐUR dönsuðu um loftið, prik flugu og teygjubönd voru strekkt á leikdegi aldraðra sem Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra og eldri ungmennafélagar stóðu fyrir í íþróttahúsinu við Austurberg í gær.

SLÆÐUR dönsuðu um loftið, prik flugu og teygjubönd voru strekkt á leikdegi aldraðra sem Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra og eldri ungmennafélagar stóðu fyrir í íþróttahúsinu við Austurberg í gær. Guðrún Níelsen, formaður félagsins, segir að alls hafi um 700 manns tekið þátt í skemmtuninni, en þetta er í 18. sinn sem íþróttadagurinn er haldinn.

Tólf atriði voru sýnd og komu þau frá félögum eldri borgara og félagsmiðstöðvum víðsvegar um suðvesturhorn landsins. "Þetta er geysilega skemmtilegt og litskrúðugt," segir Guðrún og bætir við að meðal þess sem boðið hafi verið upp á hafi verið dansatriði þar sem innblástur var sóttur í útsölumenningu landans. Fólk hafi setið í sætum sínum en stjórnandinn, Kolfinna Sigurvinsdóttir, hafi leiðbeint um hvernig fólk ætti að krafsa í útsölukassana, velja og olnboga sig áfram. Í lokin var seilst í vasana til að ná í peninga og borga.

"Svo voru hefðardansar áðan. Það var rétt eins og við værum komin í frönsku hirðina. Það var geysilega skemmtilegt og fallegt," segir Guðrún. Í lok hátíðarinnar fara síðan allir út á gólf og dansa og syngja saman. Aðspurð segist Guðrún ekki í neinum vafa að dagur á borð við þennan gefi fólki geysilega mikið. "Það er bæði líkamlegt og andlegt. Félagsskapurinn spilar þarna 50% inn í, að æfa svona saman. Þetta tengir fólk og gleður - og reynir á líkamann," segir Guðrún.

Á seinni árum hefur eldra fólk í vaxandi mæli áttað sig á mikilvægi hreyfingar til að halda góðri heilsu.