HÆSTIRÉTTUR hefur hafnað beiðni um endurupptöku máls þar sem blaðamennirnir Kristján Þorvaldsson og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir voru dæmd til greiðslu miska- og skaðabóta vegna umfjöllunar um vafasöm málverk og viðskiptahætti Gallerís Borgar í vikublaðinu...

HÆSTIRÉTTUR hefur hafnað beiðni um endurupptöku máls þar sem blaðamennirnir Kristján Þorvaldsson og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir voru dæmd til greiðslu miska- og skaðabóta vegna umfjöllunar um vafasöm málverk og viðskiptahætti Gallerís Borgar í vikublaðinu Pressunni í desember 1990. Jafnframt voru tilgreind ummæli ómerkt og blaðamönnunum gert að greiða sekt.

Kristján segir að Blaðamannafélag Íslands hafi haft frumkvæði að því að Atli Gíslason, lögmaður félagsins, færi fram á endurupptöku málsins í ljósi nýrra staðreynda í kjölfar rannsóknar á málverkafölsunum. Hann leggist ekki gegn því að fara með málið lengra, þ.e. til dómstóla í Evrópu.

Með endurupptökubeiðni Atla fylgdu ný gögn og var skírskotað til nýrra atvika sem ekki var unnt að byggja á við meðferð þess fyrir Hæstarétti á sínum tíma. Þeim Kristjáni og Þóru Kristínu hafi ekki gefist kostur á að færa sönnur á réttmæti ummæla sinna með skoðun á málverkunum sem blaðagreinin fjallaði um og dæmt var fyrir. Í kjölfar umfangsmikillar lögreglurannsóknar á ætluðum fölsunum fjölda málverka, sem öll tengdust starfsemi Gallarís Borgar, hafi komið fram staðfestar upplýsingar um yfirgripsmiklar málverkafalsanir. Blaðamennirnir óskuðu eftir að dómkvaddir menn mætu þau tvö málverk, sem fjallað var um Pressunni á sínum tíma og komu í ljós eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 1999, og var niðurstaða matsmannanna sú að hvorgt málverkanna væri eftir skráðan höfund. Atli segir að með vísan til þess telji Kristján og Þóra Kristín ljóst að umfjöllun þeirra um sölu "vafasamra" mynda hafi átt við full rök að styðjast.

Sett eru þröng skilyrði, sem öll verður að uppfylla, svo að mál verði endurupptekið fyrir Hæstarétti. Í niðurstöðu segir að þau nýju gögn, sem hafi verið lögð fram meira en tíu árum eftir að greinin birtist, hrófli ekki við grunnatriðum dómsins. Þau Kristján og Þóra Kristín hafi ekki sýnt fram á að sterkar líkur séu leiddar að því að gögnin leiði til breyttrar niðurstöðu að því er varði tilgreind ummæli á þessum tíma.