Sigurður Grétarsson, forsvarsmaður REMFLÓ hf., Jón Vilmundarson og Helga Þórisdóttir í þjónustugryfjunni þar sem unnið er að mjöltum.
Sigurður Grétarsson, forsvarsmaður REMFLÓ hf., Jón Vilmundarson og Helga Þórisdóttir í þjónustugryfjunni þar sem unnið er að mjöltum. — Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Selfoss | Í nýjum mjaltabás á bænum Skeiðháholti hjá þeim Jóni Vilmundarsyni og Helgu Þórisdóttur er hægt að mjólka 14 kýr í einu. Þau eru einnig með þrjá sjálfvirka fóðurbása í fjósinu en þeir tengjast kerfinu sem stýrir mjaltavélunum.

Selfoss | Í nýjum mjaltabás á bænum Skeiðháholti hjá þeim Jóni Vilmundarsyni og Helgu Þórisdóttur er hægt að mjólka 14 kýr í einu. Þau eru einnig með þrjá sjálfvirka fóðurbása í fjósinu en þeir tengjast kerfinu sem stýrir mjaltavélunum. Kýrnar í fjósinu eru með tölvukubb um hálsinn sem tölvustýrt mjalta- og fóðurkerfið les af og gefur merki inn í tölvuna sem stýrir síðan fóðri fyrir viðkomandi kú og skráir mjaltirnar, gangmál og fleira. Tölvan sem stýrir kerfinu er lítil fartölva sem staðsett er í fjósinu.

"Þetta er mjög vinnusparandi og fer vel með kýrnar. Mjaltirnar verða betri fyrir þær, júgurbólga hefur snarminnkað og minna er um meltingartruflanir í kúnum," segir Jón.

Það er fyrirtækið REMFLO hf. á Selfossi sem selur heildarlausn á mjalta- og fóðurkerfi til bænda og þjónustar þau. Fyrirtækið sem er dótturfyrirtæki Mjólkurbús Flóamanna stóð að opnu fjósi í liðinni viku og kynnti þar tækjabúnaðinn. Á síðasta ári setti fyrirtækið upp tíu mjalta- og fóðurkerfi en alls hefur fyrirtækið sett upp 55 mjaltabása um allt land af sömu gerð og er í Skeiðháholti.

Jón og Helga í Skeiðháholti eru með 310 lítra mjólkurkvóta. Þau segja helsta kostinn við þetta kerfi að það gefi góða yfirsýn yfir það sem er í gangi hjá kúnum og hægt sé að bregðast fljótt við því sem kemur upp á og koma í veg fyrir sjúkdóma. Nýi mjaltabásinn hefur verið notaður í Skeiðháholti síðan 1. september í fyrra.