Bænir ritaðar á arameísku í sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni í Jerúsalem.
Bænir ritaðar á arameísku í sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni í Jerúsalem.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ARAMEÍSKA, hið forna tungumál sem Jesú Kristur talaði, heyrist lítið nú til dags.

ARAMEÍSKA, hið forna tungumál sem Jesú Kristur talaði, heyrist lítið nú til dags. Gamall maður úr sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni kvartar yfir því að hann geti varla talað við neinn á arameísku nema munka, og nunna segir að bænirnar séu nánast hið eina sem hún kann á arameísku. Sumir telja að arameíska sem talmál muni hverfa á næstu áratugum.

Málfræðingar vonast hins vegar til þess að hin nýja mynd leikarans Mel Gibsons, Píslarsaga Krists eða The Passion of the Christ, muni hleypa lífi í tungumálið að nýju en þar er fjallað um síðustu klukkustundirnar í lífi Krists áður en hann var krossfestur. Í myndinni, sem frumsýnd var í Bandaríkjunum í gær, er einungis töluð arameíska og latína og lærðu leikararnir því rullur sínar á þeim tungumálum. Prestur við Loyola Marymont háskóla í Los Angeles þýddi handritið úr ensku yfir á fyrstu aldar arameísku og latínu.

Arameíska var eitt sinn aðaltungumálið í Mið-Austurlöndum og hluta af Asíu. Núna talar hana einungis um hálf milljón manna, aðallega þeir sem tilheyra sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni, en einnig aðrir kristnir menn, á ákveðnum svæðum í Írak, Tyrklandi, Líbanon, Indlandi, Evrópu, Ástralíu og nokkrum borgum í Bandaríkjunum. "Það leikur enginn vafi á því að hætta er á að arameíska deyi út," segir Moshe Bar-Asher, forseti hebresku tungumálaakademíunnar í Jerúsalem.

Mörg þúsund ára gamalt tungumál

Arameíska er eitt fárra tungumála sem hefur verið talað samfellt í þúsundir ára. Hún er semískt tungumál og er skyld hebresku og arabísku.

Hún kemur fyrir í rituðum heimildum frá því á tíundu öld fyrir Krist en líklegt er að hún hafi verið töluð enn fyrr. Textar á arameísku hafa fundist allt frá Egyptalandi til Indlands.

Talið er að uppruna tungumálsins megi rekja til arameía, hirðingja sem fluttu frá gróðurlausum svæðum á Arabíuskaga til búsældarlegri staða í Mesópótamíu og settust síðan að lokum að í kringum Damaskus, höfuðborg Sýrlands, á þrettándu öld fyrir Krist. Mestri útbreiðslu náði arameíska í kringum 500 fyrir Krist þegar Persneska heimsveldið tók hana upp. Hins vegar vék hún að miklu leyti fyrir arabísku á 7. öld þegar arabar lögðu undir sig stór landsvæði.

Talaði arameísku á krossinum

Fræðimenn telja að Jesú hafi ef til vill kunnað hebresku, sem þá var einungis töluð af yfirstéttinni og í samkunduhúsum, dálítið í grísku en móðurmál hans hafi verið arameíska sem töluð var í Galíleu, héraðinu sem hann var frá. Samkvæmt Nýja testamentinu segir Jesú síðustu orð sín á krossinum á arameísku: "Elóí, Elóí, lama sabakhtaní?" sem þýðir "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?"

Í Sýrlandi er arameíska enn töluð í þremur fjallaþorpum norður af Damaskus. Um 10.000 manns þar tala hana en þeim fækkar óðum, messur eru nú á arabísku, hinir gömlu sem töluðu málið deyja og hinir ungu flytjast burt, segir hinn 63 ára gamli kennari George Rizkallah sem er svartsýnn á framtíð þessarar fornu tungu.

Jerúsalem. AP.