KARLAR í stjórnarráði Íslands eru yfirleitt ánægðari með stöðu jafnréttismála en konur og telja að markvissar sé unnið að því að jafna stöðu kynjanna.

KARLAR í stjórnarráði Íslands eru yfirleitt ánægðari með stöðu jafnréttismála en konur og telja að markvissar sé unnið að því að jafna stöðu kynjanna. Rétt tæp 60% karlanna eru ánægð með stöðu jafnréttismála en rétt rúmur fjórðungur kvenna að því er kemur fram í niðurstöðum könnunar sem IMG Gallup vann í samvinnu við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.

Mat á jafnrétti er jákvæðast þegar spurt er um viðhorf starfsmanna til þess hvort gerðar séu sömu kröfur til kynjanna, það er lakast þegar kemur að jafnrétti í launum og hlunnindum en 45% töldu að karlar og konur fengju greidd sömu laun fyrir sambærileg störf og vinnutíma og 52% töldu að karlar og konur fengju sömu hlunnindi fyrir sambærileg störf og vinnutíma, að því er kemur fram í frétt forsætisráðuneytsins.

57% töldu kynferði ekki skipta máli varðandi launakjör

Um 77% töldu að þeirra eigin kynferði skipti ekki máli varðandi starfsframa en 57% töldu að kynferði þeirra skipti ekki máli varðandi launakjör.

Um 79% starfsmanna töldu töku fæðingarorlofs hvorki til hindrunar né framdráttar fyrir karla en heldur færri, eða 75%, töldu að taka fæðingarorlofs væri hvorki til hindrunar né framdráttar fyrir konur.