"ÉG fagna því sérstaklega að eftir langvarandi stöðnun í skipulags- og byggingarmálum miðborgarinnar skuli loksins koma fram skipulagstillögur bæði frá borgaryfirvöldum og áhugasömum aðilum utan borgarkerfisins," segir Vilhjálmur Þ.

"ÉG fagna því sérstaklega að eftir langvarandi stöðnun í skipulags- og byggingarmálum miðborgarinnar skuli loksins koma fram skipulagstillögur bæði frá borgaryfirvöldum og áhugasömum aðilum utan borgarkerfisins," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, í borgarstjórn um nýjar skipulagstillögur fyrir miðborgina.

"Ég tel að þessar tillögur opni á marga möguleika til að efla miðborgina hvað varðar verslun, viðskipti og menningu. Það er afar ánægjulegt að sjá að öflugir athafnamenn og fjárfestar hafi áhuga á uppbyggingu þessa svæðis. Það er í raun forsenda þess að unnt verði að framkvæma endanlegt skipulag utan tónlistar- og ráðstefnuhúss," segir hann.

Betri kostur að taka Geirsgötu norður fyrir

Vilhjálmur segist varðandi skipulagstillögurnar sjálfar vera þeirrar skoðunar að það sé slæmur kostur að Geirsgatan skeri svæðið í sundur. Sú tillaga sem ýmsir athafnamenn hafi kynnt, þar sem gert sé ráð fyrir því að Geirsgatan verði í jaðri þessa svæðis meðfram hafnarbakka og tengist núverandi Geirsgötu norðan Kolaportsins, sé betri lausn. Með þeim hætti náist betri samfella innan svæðisins austan miðbakka. "Ég tel afar mikilvægt að byggð verði verslunarmiðstöð á þessu svæði en hún þyrfti ekki að vera á stærð við Kringluna eða Smáralind. Bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss, hótels, skrifstofuhúsnæðis og verslunarmiðstöðvar styður vel hvert við annað og treystir betur rekstrarforsendur þeirra sem munu byggja og reka húsnæði í miðborginni. Ég tel að verslunarmiðstöð á þessu svæði sé heppilegri en verslanir á jarðhæð margra húsa á svæðinu. Reynslan sýnir að verslunarmiðstöðvar í miðborgum nálægra ríkja hafa bæði styrkt viðkomandi miðborgir og haft góð áhrif á verslun í næsta nágrenni." Hann segist sannfærður um að verslunarmiðstöð á þessu svæði í miðborginni muni styrkja verslun á Laugavegssvæðinu og næsta nágrenni.

Við nánari útfærslu á tillögum þurfi hins vegar að hafa gott samráð við hagsmunaaðila og borgarbúa almennt. "Það skiptir miklu máli hvernig skipulagsmál eru meðhöndluð og hvernig ákvarðanir eru teknar. Það þarf að gæta að ýmsu, m.a. umferðarmálum, umhverfinu og það þarf að taka tillit til miðborgarinnar eins og hún er í dag, stöðu hennar og hlutverks í okkar samfélagi."