Haukur J. Gunnarsson
Haukur J. Gunnarsson
ALÞJÓÐA leikhúsmálastofnunin, ITI, hefur ákveðið, að tillögu Japansdeildar ITI, að veita Hauki J. Gunnarssyni leikstjóra í ár hin japönsku Uchimura-verðlaun.

ALÞJÓÐA leikhúsmálastofnunin, ITI, hefur ákveðið, að tillögu Japansdeildar ITI, að veita Hauki J. Gunnarssyni leikstjóra í ár hin japönsku Uchimura-verðlaun. Haukur hlýtur þau vegna starfa sinna við að kynna og vinna með japanska leikhúsmenningu meira en aldarfjórðung á Íslandi, Noregi og víðar. Einnig sérstaklega fyrir sýningu sína á tveimur nútíma Noh-leikritum eftir Yukio Mishima, "Yoroboshi" og "Hanjo", undir samheitinu Mishima x 2 sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu í Þrándheimi í Noregi 2002.

Haukur J. Gunnarsson stundaði nám í japönsku og japanskri leiklist og leiklistarhefðum, Noh og Kabuki, 1969-1972. Var hann fyrstur Íslendinga til að stunda nám í Japan. Eftir nám sitt þar hélt hann til náms í Englandi í leikstjórn 1972-1975.

Að námi loknu hefur hann starfað sem leikstjóri á Íslandi og í Noregi og verið afar ötull við að nýta í verkum sínum hinar aldafornu leiklistarhefðir Japana.

Hann hefur einnig kennt við leiklistarskóla í Noregi og á Íslandi, þá aðallega japanskar leikhúshefðir og haldið fyrirlestra víða. Þá stjórnaði hann mikilli hátíð um japanska menningu í Þrándheimi 2002, svo eitthvað sé nefnt.

Haukur var leikhússtjóri Samíska þjóðleikhússins í Norður-Noregi þar sem hann gerði athyglisverðar tilraunir við að koma menningararfleifð Sama á svið með tækni hinnar fornu japönsku leikhúsarfleifðar. Síðan var hann leikhússtjóri Borgarleikhússins í Tromsö í Noregi, en starfar nú sem leikstjóri með aðsetur í Noregi.

Uchimura-verðlaunin

Uchimura-verðlaunin eru kennd við hið kunna japanska leikskáld og leikhúsfræðimann Naoya Uchimura sem helgaði líf sitt að efla leiklist sem víðast um heim. Til verðlaunanna var stofnað eftir lát hans, 1992, af fjölskyldu Uchimura og er þeim ætlað að viðurkenna starf leikhúslistamanna fyrir utan Japan sem hafa fetað í fótspor Uchimura og byggja á japönskum leiklistarhefðum. Haukur er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þessi verðlaun.