Leikhópurinn á Senunni æfir nú kabarettverkið "Paris at night".
Leikhópurinn á Senunni æfir nú kabarettverkið "Paris at night". — Morgunblaðið/Sverrir
LEIKHÓPURINN Á Senunni æfir nú kabarettverkið "Paris at night", byggt á ljóðum franska ljóðskáldsins Jacques Prévert. Prévert fæddist í Frakklandi árið 1900 og lést 1977.

LEIKHÓPURINN Á Senunni æfir nú kabarettverkið "Paris at night", byggt á ljóðum franska ljóðskáldsins Jacques Prévert. Prévert fæddist í Frakklandi árið 1900 og lést 1977. Hann varð ungur meðlimur í hreyfingu súrrealista sem var leidd af André Breton og Louis Aragon. Ljóð Prévert draga almennt dám af þessari stefnu og einnig þeim tíðaranda sem einkenndi París millistríðsáranna. Frelsi, hömluleysi, hverfulleiki ástarinnar og dýrð hversdagsins má segja að séu lykilorð þegar lýsa á ljóðum Prévert. Það er þó oft stutt í hið spaugilega í hversdeginum. Ljóðasafnið Paroles kom út árið 1945 og hefur selst í milljónaupplagi um heim allan og á hundrað ára ártíð Préverts var safnið formlega sett inn á lista yfir sígildar franskar bókmenntir. Paroles hefur komið út í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar skálds, og ber heitið Ljóð í mæltu máli.

Sýningin Paris at night mun fanga þennan tíðaranda með eins konar kabarettsýningu þar sem ljóðlestur, söngur, tónlist, frásagnir af skáldinu og kvikmyndabrot vinna saman að því að skapa Parísarstemningu eins og hún var á tímabilinu 1920 til 1940. Verkið verður frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins 24. mars.

Leikendur eru Felix Bergsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir. Hljómsveitarstjórn er í höndum Karls Olgeirssonar og er hann einn þriggja tónlistarmanna sýningarinnar. Elín Edda Árnadóttir er hönnuður búninga og leikmyndar og um lýsingu sér Egill Ingibergsson. Þá mun Egill ásamt Gideon Kiers sjá um kvikmyndahluta verksins en Prévert skrifaði handrit að nokkrum þekktustu kvikmyndum Frakka.