DANSKUR flugumferðarstjóri, sem var á vakt þegar rússnesk farþegaþota og flutningaflugvél skullu saman yfir Sviss árið 2002, var stunginn til bana á heimili sínu í bænum Kloten í Sviss í gær. Hinn myrti var 36 ára gamall og búsettur í Sviss.

DANSKUR flugumferðarstjóri, sem var á vakt þegar rússnesk farþegaþota og flutningaflugvél skullu saman yfir Sviss árið 2002, var stunginn til bana á heimili sínu í bænum Kloten í Sviss í gær. Hinn myrti var 36 ára gamall og búsettur í Sviss. Hann var einn á vakt við flugumferðarstjórn á svæðinu þegar slysið varð 2002 en félagi hans hafði brugðið sér frá.

Tveir voru í áhöfn flutningaflugvélarinnar, sem var af gerðinni Boeing 757, en 69 manns fórust með rússnesku flugvélinni, sem var af gerðinni Tupolev 154, þar af 52 börn og unglingar frá sjálfstjórnarlýðveldinu Bashkortostan í Úralfjöllum. Þau höfðu unnið ferð til Spánar í verðlaun fyrir góðar einkunnir. Lögregla í Sviss leitar nú morðingjans, sem sagður er vera um fimmtugt og tala lélega þýsku. Hann bankaði upp á heima hjá flugumferðarstjóranum og stakk hann til bana í dyragættinni en flúði af vettvangi.

Talsmaður svissneska flugumferðarstjórnarfyrirtækisins Skyguide, þar sem Daninn vann, viðurkenndi á sínum tíma, að sögn fréttavefjar BBC, að bilanir hefðu orðið í kerfinu en Daninn er talinn hafa sagt flugmanni að lækka flugið þótt viðvörunarbúnaður í vélinni mælti gegn því. Skyguide sagði í gær að flugumferð um loftrýmið yfir Zürich-Kloten yrði takmörkuð í öryggisskyni í kjölfar morðsins. Um væri að ræða varúðarráðstöfun þar sem kollegar hins myrta flugumferðarstjóra væru miður sín vegna örlaga hans.

Genf. AFP.