Víkverji átti nokkurra daga frí á dögunum og styrkti þá kynni sín við Mokkakaffi á Skólavörðustígnum. Það er eitt af fáum kaffihúsum sem aldrei breytast og hægt að ganga að sínu þar.

Víkverji átti nokkurra daga frí á dögunum og styrkti þá kynni sín við Mokkakaffi á Skólavörðustígnum. Það er eitt af fáum kaffihúsum sem aldrei breytast og hægt að ganga að sínu þar. Í raun er sérstaða Mokka afar mikil því þar er aldrei leikin tónlist, sem væntanlega gæti truflað gáfulegar samræður gestanna, né heldur eru þar seldir áfengir drykkir. Mjög fáa ef nokkra kaffistaði eða bari er að finna í Reykjavík sem skortir þetta tvennt, sem almennt er talið að sé forsenda þess að slíkir staðir geti þrifist.

Þannig leggur Víkverji stundum leið sína á Mokka á síðkvöldum þegar hann er alls ekki í skapi til þess að vera í hávaða eða fjöri heldur vill eiga notalega stund og glugga kannski í blöðin.

Sama íhaldssemin gildir raunar um veitingaframboðið á Mokka. Allt er þar í föstum skorðum, sömu kökurnar og sömu rjómavöfflurnar á boðstólum árum og áratugum saman, sömu skinkusamlokurnar með sama franska sinnepinu. Ekkert kemur gömlum gesti þarna á óvart og heillandi að geta í heimi örra breytinga og hverfulleika gengið að samastað í tilverunnni sem ekkert breytist. Meira að segja gestirnir eru hinir sömu árum og áratugum saman, a.m.k. yfir daginn, en á kvöldin hefur staðurinn alltaf laðað til sín yngra fólk, ekki síst úr menntaskólunum.

Íhaldssemin á Mokka er skemmtilegt mótvægi við síbreytileikann í kaffihúsabransanum og hún virðist eiga sér hljómgrunn því staðurinn er sívinsæll. Víkverji hefur sótt þangað í yfir tuttugu ár og man ekki eftir að nokkur skapaður hlutur hafi breyst, hvorki veitingaframboðið, húsgögn né nokkuð annað.

Og þó. Eitt hefur breyst og það er að á Mokka eru nú nokkur borð reyklaus en áður var þar svælt á hverju borði. Loftræsting hlýtur að hafa verið góð, því þrátt fyrir miklar reykingar varð þar eiginlega aldrei ólíft og aldrei lykt af súrum og gömlum tóbaksreyk. Ekki veit Víkverji hversu marga fermetra Mokkakaffi telur en þeir eru ekki margir og vilji menn upplifa botnlausan fáránleika reykingalaganna ættu þeir að líta þar inn. Borðin á Mokka eru líklega ekki nema eins og ellefu, þar af átta mjög lítil. Plássið sem gestirnir eru í er kannski 30 fermetrar og algerlega út í hött að reyna að skipta slíkum stað í reyklausan og reykingahluta. Hægt er að teygja hönd af reykingaborðunum yfir á þau reyklausu, sem reynast miklu síður eftirsótt en reykingaborðin. Þarna hafa reglugerðirnar rekist illa á við raunveruleikann.