Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifar um varnarmál á vef sinn, bjorn.is, en þar birtast vikulegir pistlar eftir ráðherra. Hann segir: "Síðdegis laugardaginn 21.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifar um varnarmál á vef sinn, bjorn.is, en þar birtast vikulegir pistlar eftir ráðherra.

Hann segir: "Síðdegis laugardaginn 21. febrúar voru þeir Jón Kristinn Snæhólm, Eiríkur Bergmann Einarsson og Atli Gíslason að ræða saman í Silfri Egils. Þeir ræddu meðal annars varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna og hlakkaði í Eiríki Bergmann, en hann er eins og kunnugt helsti talsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu, yfir því, að við Davíð Oddsson sætum eftir með sárt enni vegna framgöngu Bandaríkjastjórnar við samdrátt í Keflavíkurstöðinni.

Létu þeir Eiríkur Bergmann og Atli, varaþingmaður vinstri/grænna og gamalgróinn herstöðvaandstæðingur, eins og varnarsamstarfinu væri lokið og fluttu báðir óvildarorð í garð Bandaríkjanna, sérstaklega lá Eiríki Bergmann illt orð til George W. Bush Bandaríkjaforseta.

Þau minntu á það, hvernig vinstrisinnar töluðu um Ronald Reagan á tímum kalda stríðsins, þegar þeir töldu hann hina mestu ógn við heimsfrið, af því að hann vildi ekki sætta sig við kjarnorkuyfirburði Sovétmanna og knúði þá til undanhalds með stjörnustríðsáætluninni.

Allt tal um, að minni umsvif PC-3 Orion kafbátaleitarvéla Bandaríkjamanna hér á landi séu til marks um, að endahnútur hafi verið bundinn á varnarsamstarfið er út í bláinn. Inntak samstarfsins hefur allt frá upphafi þess tekið mið af aðstæðum á hverjum tíma.

Við talsmenn varnarsamstarfsins leggjum áherslu á það eins og jafnan áður, að inntak þess sé skýrt og ótvírætt - hinir sem eru á móti því, að Ísland sé varið eða vilja alls ekki eiga neitt samstarf við Bandaríkjamenn eru nú sem fyrr með öllu ótrúverðugir í þessum umræðum. Það vakir ekki fyrir þeim að tryggja öryggi lands og þjóðar heldur að slá pólitískar keilur.

Um leið og þeir Eiríkur Bergmann og Atli Gíslason gera sem minnst úr varnarsamstarfi okkar við Bandaríkjamenn, skortir þá þrek til að lýsa yfir nauðsyn þess, að við Íslendingar látum sjálfir meira að okkur kveða í þágu eigin öryggis. Enginn þarf að fara í grafgötur um skoðanir mínar í því efni."