Kvennakór, með Eddu Arnljótsdóttur í forystu, lætur að sér kveða í sýningu Þjóðleikhússins á leikritinu Þetta er allt að koma.
Kvennakór, með Eddu Arnljótsdóttur í forystu, lætur að sér kveða í sýningu Þjóðleikhússins á leikritinu Þetta er allt að koma. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saga Hallgríms Helgasonar, Þetta er allt að koma, naut mikilla vinsælda þegar hún kom út. Baltasar Kormákur hefur gert leikgerð úr sögunni, sem verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Bergþóra Jónsdóttir ræddi við Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og Þórunni Ernu Clausen, sem fara með hlutverk aðalpersónunnar, Ragnheiðar Birnu.

Leikritið Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason, í leikgerð og leikstjórn Baltasars Kormáks, verður frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í kvöld.

Þetta er allt að koma er sannkölluð rússíbanaferð í gamansömum dúr um íslenskt samfélag síðustu áratuga, strauma og stefnur í lífi og listum, þar sem fjölmargar skrautlegar persónur koma við sögu!

Æviferill listakonunnar Ragnheiðar Birnu er allt annað en venjulegur, og þrautaganga hennar í leitinni að hinum hreina tóni er oft og tíðum stormasöm!

Ragnheiður Birna er aðalpersóna verksins, og dugar ekkert minna en tvær leikkonur til að túlka hana. Það eru þær Þórunn Erna Clausen og Ólafía Hrönn Jónsdóttir sem það gera.

En hver er Ragnheiður Birna?

Það er Ragnheiður Birna eldri, Ólafía Hrönn, sem svarar því:

"Ragnheiður Birna er ung og mjög metnaðarfull kona, sem lætur ekkert aftra sér frá því að gera það sem hún vill. Hún er ákveðin og stendur fullkomlega með sjálfri sér. Henni reiðir þokkalega af í sínu umhverfi, - gerir allavega allt sem hún getur, en hún getur ekki meira en það. Hún þyrfti þó að eiga meira til, til þess að verða það sem hana langar til að verða." Þórunn Erna segir að stóri draumur Ragnheiðar Birnu snúist um frægð. "Hún fer í gegnum ýmislegt til að ná þangað, prófar ýmislegt á þeim sviðum sem henni finnst hún hafa hæfileika. En þegar ekkert gengur skiptir hún bara um og prófar eitthvað annað! Hún er svo úrræðagóð; - finnur sér alltaf eitthvert nýtt svið til að láta reyna á frægðina."

Ólafía Hrönn útskýrir það nánar:

"Að einhverju leyti langar hana til að verða góð í einhverju og öðlast viðurkenningu. En hún er bara í þessu á röngum forsendum." Og Þórunn Erna tekur undir það: "Hana langar til að verða þekkt og metin af öllum, en byrjar þar; í stað þess að hafa alvöru ástríðu fyrir því sem hún er að gera snýst ástríðan um útkomuna."

Ólafía Hrönn segir að það hafi verið alveg frábært að deila hlutverkinu með annarri leikkonu. "Ég leik hana eldri og Þórunn Erna er að leika það sem ég er að tala um. Þar kemur fram sá eiginleiki Ragnheiðar Birnu að ef eitthvað hentar ekki í minningunni, þá fegrar hún það fyrir sjálfri sér." Þórunn Erna segir að samstarfið um persónuna hafi verið ánægjulegt. "Það hefur verið frábært fyrir mig að fá að vinna sama hlutverk og jafn stórkostleg leikkona og Ólafía Hrönn. Mér finnst ég hafa lært mikið af því að vinna með henni. Okkur hefur vonandi tekist að ná saman á miðri leið í túlkun Ragnheiðar Birnu."

Fyrsta stóra hlutverkið í Þjóðleikhúsinu

Þórunn Erna Clausen er hér í fyrsta sinn í stóru hlutverki í Þjóðleikhúsinu, en áður lék hún - og söng - í Syngjandi í rigningunni og leysti Selmu Björnsdóttur jafnframt af í aðalhlutverki söngleiksins.

Þórunn Erna útskrifaðist fyrir þremur árum úr erlendum leiklistarskóla og hefur ekki setið auðum höndum síðan.

"Ég var í Rauðhettu í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Lykli um hálsinn í Vesturporti, Guðríði í Skemmtihúsinu, og svo í Dýrlingagenginu og Le Sing, og auk þess hef ég leikið í bíómynd, sem ekki er búið að sýna."

Það hefur stundum verið sagt, að þeir sem mennta sig erlendis í leiklistinni eigi erfiðara uppdráttar þegar heim kemur að fá vinnu en þeir sem hafa lært hér. Þórunn Erna segir það ekki hafa átt við sig. "Ég er ekki fastráðin við stóru leikhúsin, en ég er búin að vera í stanslausri vinnu frá því ég kom heim, - líka á sumrin. Ég veit ekki hvort þetta er jafn erfitt og af er látið, eða hvort ég hef bara verið svona heppin. Ég get í það minnsta ekki kvartað." Vinnan við atvinnuleikhús er að mati Þórunnar Ernu svolítið öðruvísi en með litlu leikhópunum og þar kemur ýmislegt til. "Það er stærra batterí í kringum allt í atvinnuleikhúsinu, margar deildir sem sinna hver sínu hlutverki. Stemmningin hjá leikhópunum er öðru vísi, og þar eru allir með meiri ábyrgð á að allt gangi upp. En það er svo skrýtið, - að mér finnst sú stemmning hafa náðst í hópnum sem er í þessu verki í Þjóðleikhúsinu - og kannski er hún bara alltaf til staðar, ég veit það ekki. Baltasar hefur þjappað fólkinu vel saman. Ætli mesti munurinn sé ekki hvað það er allt stórt hér í samanburði við litlu leikhúsin."

Þórunn Erna ítrekar hvað leikhópurinn í Þetta er allt að koma sé góður. "Já, hann er alveg frábær. Þetta er líka svo skemmtilegt hlutverk og mér finnst leikgerðin hjá Baltasar hafa tekist mjög vel. Ég bind miklar vonir við verkið."

Þórunn Erna segir það ekki hafa verið erfitt að setja sig inn í hlutverk Ragnheiðar Birnu. "Hún er ekkert svo ólík mér. Ég held reyndar að það séu margir í þessum bransa sem geta séð sjálfa sig í Ragnheiði Birnu; - og kannski bara fólk yfir höfuð. Það virðist auðvelt fyrir fólk að tengjast þessari manneskju."

Þær Þórunn Erna og Ólafía Hrönn segja að í leitinni að Ragnheiði Birnu hafi þær lagt á ráðin um að koma sér upp sameiginlegum kæk. "En hann er bara ekki kominn ennþá," segir Ólafía Hrönn og fitjar upp á trýnið.

Ragnheiður Birna er músíkmanneskja og spilar á fiðlu. Það þarf Þórunn Erna því líka að gera á sviðinu. "Sko, komdu bara á sýninguna og sjáðu...!" Ólafía Hrönn vill útskýra þetta nánar. "Ég held að við Þórunn Erna séum svolítið eins og Ragnheiður Birna að sumu leyti. Við erum þrjóskar. Þórunn Erna tók fiðluna og sargaði á hana endalaust, því hún ætlaði sér að geta spilað aðeins á fiðlu - og henni tókst það." "Aðeins, - það er rétta orðið," bætir Þórunn Erna hlæjandi við. "Það er mjög erfitt að læra á fiðlu, þannig að ég held að ég hafi bara náð ágætis árangri á svona stuttum tíma. Fiðlan var samvaxin öxlinni á mér í langan tíma, og ég festist meira að segja í hálsinum við æfingar!" "Það má segja að við séum heppnar að því leyti," segir Ólafía Hrönn, "að Ragnheiður Birna verður aldrei mjög góð í neinu, þótt hún ætli sér mikið. Það er svolítil Ragnheiður Birna í okkur öllum. Hún er eins og svo margir, - ég sé mig líka í henni. Ragnheiður Birna hefur eiginleika sem er gott að hafa. Hún er bjartsýn, og ætlar sér að ná langt. Hún er algjör Íslendingur. Ef henni finnst eitthvað óþægilegt, þá hendir hún því aftur fyrir sig og vill ekki muna það. Þennan eiginleika er nauðsynlegt að hafa þótt hann gangi svolítið langt hjá henni."

Bókin hlaut góðar viðtökur

Hallgrímur Helgason er Íslendingum að góðu kunnur, bæði sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hann hefur meðal annars sent frá sér skáldsögurnar Hella, Þetta er allt að koma sem hlaut geysigóðar móttökur lesenda, 101 Reykjavík, Höfundur Íslands og Herra Alheimur. Fyrir leiksvið hefur hann m.a. skrifað eintalsþættina Óbreyttur maður, rómantíska gamanleikinn Kossinn og ljóðaleikinn Skáldanótt. Baltasar Kormákur byggði kvikmyndina 101 Reykjavík á samnefndri sögu Hallgríms en hún er ein vinsælasta og fjölsóttasta kvikmynd íslenskrar kvikmyndasögu. Baltasar og Hallgrímur vinna nú saman að nýrri kvikmynd.

begga@mbl.is