Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Þorvarður Elíasson, skólastjóri Verslunarskólans, ásamt stoltri ritnefnd á hátíð í Háskólabíói sem haldin var í tilefni  útkomu 70. heftisins.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Þorvarður Elíasson, skólastjóri Verslunarskólans, ásamt stoltri ritnefnd á hátíð í Háskólabíói sem haldin var í tilefni útkomu 70. heftisins. — Morgunblaðið/Páll Bergmann
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SKÓLABLAÐ Verzlunarskólans hefur ævinlega verið sérlega vandað og er eiginlega orðið að bók frekar en blaði.

SKÓLABLAÐ Verzlunarskólans hefur ævinlega verið sérlega vandað og er eiginlega orðið að bók frekar en blaði. Ólafur Páll Ólafsson sem ritstýrði blaðinu að þessu sinni segir ástæðuna fyrir því að svo mikið sé lagt í skólablöðin sem raun ber vitni, vera þá að hugsunarhátturinn í Versló hafi af einhverjum ástæðum ævinlega verið sá að toppa blaðið frá árinu á undan. "Þau sem gáfu út blaðið í fyrra sprengdu eiginlega allan skalann með því að hafa blaðið innbundið í harðspjöld. Okkur í ritnefndinni núna var því ekki stætt á öðru en hafa þetta enn flottara." Verzlunarskólablaðið í ár er því bæði í stærra broti en í fyrra, heilar 245 blaðsíður, innbundið í harðspjöld og auk þess í viðhafnaröskju. "Uppsetjarinn hjá okkur var sá sami og í fyrra, Ólafur Breiðfjörð, sem er alveg rosalega fær á sínu sviði eins og sjá má þegar blaðinu er flett."

Ísland er langflottast

Og í flettingum kemur líka í ljós að pappírinn er ekkert slor og allt í lit. Íslensku fánalitirnir rauður, blár og hvítur eru áberandi í blaðinu enda er Ísland þema blaðsins þessu sinni. Sjálft föðurlandið. "Í samhengi við þetta þema þá skiptum við blaðinu í þrjá kafla með heitum íslenska fánans: Eldur, vatn og ís. Með hverju þessara þriggja elementa fylgir ljóð með ljósmynd sem nær yfir eina og hálfa síðu." Í blaðinu eru líka viðtöl við hin fjögur fræknu, eins og Ólafur Páll kallar þau: Íslendinga sem hafa skarað fram úr hver á sínu sviði: Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands, Björk Guðmundsdóttur tónlistarkonu Íslands, Eið Smára Guðjohnsen íþróttamann Íslands og Ingvar E. Sigurðsson leikara Íslands.

En hversvegna Íslandsþema?

"Hugmyndin um Íslandsþemað kom fljótt upp hjá ritnefndinni og tilgangurinn er auðvitað að fylla alla af þjóðarstolti. Enda er Ísland best," segir Ólafur Páll með dularfullri blöndu af drambi og húmor.

Minningargrein um Keikó

Heilmikið spennandi efni er í blaðinu auk stóru viðtalanna við stóru Íslendingana, t.d. dagbók ofurhuga, smásögur og ljóð, minningargrein um Íslendinginn Keikó, grein um að vera kvenkyns, um deit, um vöðvafíkn og viðtal við guð, svo fátt eitt sé nefnt. Og glás af auglýsingum, því heilmikið hljóta herlegheitin að kosta. Ólafur Páll færist undan því að nefna kostnaðartölu en segir að blaðið standi undir sér. "Við erum með sjötíu auglýsingar og í um helming þeirra sköffuðum við sjálf ljósmyndara og módel, síðan erum við með sjöhundruð gamla Verzlinga sem eru áskrifendur að blaðinu og hvert eintak kostar 1.900 krónur og svo keypti Þorvarður skólastjóri 150 eintök sem hann lætur dreifa í grunnskóla og á hina ýmsu staði, þannig að þetta reddast."

Peysufatadagurinn framundan

Einar tíu opnur hér og þar í blaðinu eru lagðar undir nafngreindar myndir af fjórðubekkingum skólans.

"Þetta eru annars árs nemendur skólans og framundan hjá þeim er sú hefð og hátíð sem kallast peysufatadagur og þá er svaka stuð."

Ofan á allt saman var svo haldin útgáfuhátíð í Háskólabíói sl. föstudag, þar sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var viðstaddur og flutti ræðu í tilefni dagsins. "Hann fór á kostum og var alveg rosalega skemmtilegur," segir nafni hans Ólafur Páll og bætir við að á hátíðinni hafi verið sýnt myndband sem tengdist Íslandsþema blaðsins. "Þar voru íslenskir fossar, eldfjöll og annað rammíslenskt í aðalhlutverki, Vala Flosa að stökkva af sinni alkunnu snilld og ýmislegt fleira og tónlist Bjarkar hljómaði undir," segir Ólafur Páll að lokum, hæstánægður með glæstan afrakstur ritstjórnarinnar.

khk@mbl.is