Bandaríkin 2003. Skífan VHS. (117 mín.) Bönnuð innan 16 ára. Leikstjóri Bruce Beresford. Aðalhlutverk Antonio Banderas, Alan Arkin, Jim Broadbent.

ANTONIO Banderas fer á kostum í þessari ágætu sjónvarpsmynd sem tekur á skemmtilegan hátt á sérkennilegu skeiði í sögu Bandaríkjanna á fyrstu árum 20. aldarinnar þegar vestrið hætti að vera villt. Þá urðu árekstrarnir eins og gefur að skilja margir, stundum sorglegir en einnig skondnir eins og í þessu fjarstæðukennda dæmi. Myndin gengur nefnilega út á það þegar D.W. Griffith og félagar í Hollywood fengu þá flugu í höfuðið að byltingin í Mexíkó gæti verið hið fínasta efni í bíómyndir, og þá sér í lagi byltingarleiðtoginn sjálfur, Pancho Villa. Buðu þeir honum því fúlgur fjár í byltingarsjóðinn gegn því að fá að mynda hann og gera úr honum kvikmyndastjörnu, sem var samþykkt. Banderas leikur Villa af miklum og trúverðugum krafti og drífur áfram annars fremur máttvana mynd hins mistæka Beresfords (Driving Miss Daisy). **½

Skarphéðinn Guðmundsson