Oliver Kahn eftir mistökin.
Oliver Kahn eftir mistökin. — Reuters
"ÉG verð bara að vinna leikinn í Madrid upp á eigin spýtur," sagði Oliver Kahn, markvörður og fyrirliði Bayern München, í viðtölum við þýska fjölmiðla í gær.

"ÉG verð bara að vinna leikinn í Madrid upp á eigin spýtur," sagði Oliver Kahn, markvörður og fyrirliði Bayern München, í viðtölum við þýska fjölmiðla í gær. Kahn var helsta skotmark þýsku íþróttapressunnar í gær í kjölfar herfilegra mistaka í leik Bæjara og Real Madrid í Meistaradeildinni í fyrrakvöld þegar hann missti undir sig skot Carlosar af 30 metra færi.

"Skólastrákamistök kostuðu Bayern sigurinn" sagði í fyrirsögn Bild og í AZ-blaðinu í München var fyrirsögnin: "Kahn kom í veg fyrir kraftaverk".

Svipuð mistök hentu Kahn í úrslitaleik Þjóðverja og Brasilíumanna á HM í S-Kóreu fyrir tveimur árum þegar hann missti undir sig laust skot Rivaldos þegar Brassar fögnuðu sigri, 2:0, og nudduðu þýskir fjölmiðlar salti í sár Kahns með því að rifja það upp.

"Ég verð auðvitað að spyrja sjálfan mig hvað sé að gerast hjá mér þessa dagana. Ég hef sjaldan eða aldrei verið í betra formi og nú enda hef ég aldrei æft eins mikið. En það er eitthvað sem bjátar á og ég verð að leita skýringanna hjá mér sjálfum," sagði Kahn við fréttamenn í gær. Í síðustu viku gerði þessi frábæri markvörður sig sekan um mistök í landsleik Þjóðverja og Króata og í leikjum Bæjara í þýsku deildinni hefur hann ekki þótt of sannfærandi á milli stanganna.

Kahn nýtur stuðnings þjálfara og forráðamanna Bayern-liðsins. "Hann hefur unnið marga leiki fyrir okkur og ég er alveg sannfærður um að hann gerir það í Madrid," sagði Karl-Heins Rummenigge, stjórnarmaður Bayern, en Kahn var hetja Bæjara í Meistaradeildinni vorið 2001 þegar hann varði þrjár vítaspyrnur í vítaspyrnukeppninni í úrslitaleiknum gegn Valencia.

Kahn hefur ekki gengið heill til skógar og til að mynda missti hann af leik Bayern gegn Hamburger um síðustu helgi vegna bakmeiðsla. Kahn kennir þó ekki þeim meiðslum um ófarirnar gegn Real Madrid. "Þetta skot átti ég að stöðva jafnvel þó svo ég hefði engar hendur né fætur," sagði Kahn.

Þýsku götublöðin hafa undanfarna mánuði birt ótt og títt fréttir af markverðinum eftir að hann skildi við ófríska eiginkonu sína á síðasta ári og tók í stað hennar ástfóstri við gengilbeinu á þrítugsaldri.