Áslaug Helgadóttir
Áslaug Helgadóttir
Áslaug Helgadóttir fæddist í Reykjavík 17. júlí 1953. Lauk BS-prófi í landbúnaðarvísindum frá Manitobaháskóla 1976 og doktorsprófi í hagnýtri grasafræði með erfðavistfræði sem sérgrein 1982. Hefur starfað við Rannsóknastofnun landbúnaðarins frá námslokum. Sviðsstjóri jarðræktarsviðs frá 1991 og aðstoðarforstjóri frá 2001. Maki er Nikulás Hall, eðlisfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu, og eiga þau fjögur börn. Áslaug hlaut Hvatningarverðlaun Rannís 1990.
Áslaug Helgadóttir fæddist í Reykjavík 17. júlí 1953. Lauk BS-prófi í landbúnaðarvísindum frá Manitobaháskóla 1976 og doktorsprófi í hagnýtri grasafræði með erfðavistfræði sem sérgrein 1982. Hefur starfað við Rannsóknastofnun landbúnaðarins frá námslokum. Sviðsstjóri jarðræktarsviðs frá 1991 og aðstoðarforstjóri frá 2001. Maki er Nikulás Hall, eðlisfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu, og eiga þau fjögur börn. Áslaug hlaut Hvatningarverðlaun Rannís 1990.

Nú líður að vali og afhendingu Hvatningarverðlauna Rannís. Formaður dómnefndar er Áslaug Helgadóttir og svaraði hún nokkrum spurningum á dögunum.

Segðu okkur eitthvað frá verðlaununum...

"Verðlaunin hafa verið veitt 14 sinnum frá árinu 1987. Fyrsti verðlaunahafinn var Jakob K. Kristjánsson sem þá var sérfræðingur á Iðntæknistofnun en er nú forstjóri Prokaria hf. Þau voru síðan veitt annað hvert ár fyrstu árin en síðan árlega frá 1996. Verðlaunahafar eru orðnir 18 talsins, því sum árin voru þeir tveir, og koma þeir víða að. Í hópnum eru starfsmenn háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja á almennum markaði. Nokkrir leika tveimur skjöldum, eru kennarar við Háskóla Íslands en jafnframt starfandi við eigin fyrirtæki sem sprottið hafa upp úr rannsóknum þeirra. Má þar nefna Jakob hjá Prokaria, Sveinbjörn Gizurarson, framkvæmdastjóra Lyfjaþróunar hf., og Orra Vésteinsson hjá Fornleifastofnun Íslands. Aðrir verðlaunahafar eru Gunnar Stefánsson tölfræðingur, Hörður Arnarson, forstjóri Marels, Reynir Arngrímsson læknir, Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur, Kristján Kristjánsson heimspekingur, Jón Atli Benediktsson verkfræðingur, Ingibjörg Harðardóttir lífefnafræðingur, Valur Ingimundarson sagnfræðingur, Hilmar B. Janusson verkfræðingur, Eiríkur Steingrímsson erfðafræðingur, Anna K. Daníelsdóttir stofnerfðafræðingur, Magnús Már Halldórsson tölvunarfræðingur, Steinunn Thorlacius líffræðingur og Svanhildur Óskarsdóttir bókmenntafræðingur."

Hver er tilurð verðlaunanna?

"Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1987 á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands að frumkvæði Rannsóknaráðs ríkisins sem þá var. Undir það heyrðu rannsóknastofnanir atvinnuveganna sem sprottið höfðu upp úr gömlu atvinnudeildinni. Upphaflegt markmið með verðlaunaveitingunni var að vekja athygli á ungum vísindamanni og rannsóknum hans sem skilað hefðu verulegu framlagi til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og hvetja þannig aðra til dáða. Verðlaunaveitingin var því einskorðuð við hagnýtar rannsóknir fyrstu árin. Með tilkomu Rannsóknarráðs Íslands, við sameiningu gamla rannsóknaráðsins og vísindaráðs, fékk hún svo víðari skírskotun."

Hver er tilgangur verðlaunanna og markmið?

"Markmiðið með veitingu hvatningarverðlaunanna er að hvetja unga vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og störfum vísindamanna. Þau eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treystir stoðir mannlífs á Íslandi."

Eftir hverju er farið?

"Það er litið til ýmissa þátta og valið hefur oft verið erfitt því jafnan eru ákaflega færir vísindamenn tilnefndir. Tekið er tillit til námsferils, sjálfstæðis í störfum, frumleika og árangurs í vísindastörfum að loknu námi. Má þar nefna ritverk, einkaleyfi, framlag í störfum á alþjóðavettvangi svo og aðrar vísbendingar um líklegan árangur af störfum viðkomandi. Sérstaklega er litið til brautryðjandastarfs í vísindum. Þá er litið á faglegt framlag hans til samstarfsmanna á vinnustað og miðlunar á þekkingu til samfélagsins."

Hvaða þýðingu hafa verðlaunin?

"Verðlaunin hafa ótvírætt gildi fyrir verðlaunahafann. Viðkomandi einstaklingur fær þau tiltölulega snemma á ferli sínum því miðað hefur verið við aldurstakmarkið 40 ár, en þó hefur verið tekið tillit til tafa sem kunna að verða á ferli vísindamannsins vegna umönnunar barna. Verðlaununum er ætlað að hvetja hann til dáða í störfum sínum og vekja jafnframt athygli á viðfangsefnum hans. Slíkt er ómetanlegt, einkum í ljósi þeirra aðstæðna sem vísindamenn starfa nú orðið í þar sem þeir þurfa oftar en ekki að sækja um stuðning til verkefna sinna í harðri samkeppni við aðra."

Hver eru verðlaunin?

"Verðlaunin eru nú 2 milljónir króna og eru þar með stærstu vísindaverðlaun sem veitt eru á Íslandi. Það er því eftir allmiklu að slægjast."

Hver fær verðlaunin?

"Það veit enginn. Nú er verið að óska eftir tilnefningum og mega þær koma frá öllum sviðum vísinda, tækni og fræða. Nefna má vísindafólk sem starfar við háskóla, rannsóknastofnanir, fyrirtæki eða er sjálfstætt starfandi Frestur til að skila tilnefningum er til 15. mars nk. Allir, sem eru í aðstöðu til að meta störf einstakra vísindamanna, mega tilnefna verðuga einstaklinga og eru þeir hér með hvattir til þess. Við gerum svo ráð fyrir að veita verðlaunin við hátíðlega athöfn í apríl næstkomandi."