ÍSLENSKA landsliðið í handknattleik mætir Grikkjum í tveimur æfingaleikjum fyrir leikina gegn Ítölum sem skera úr um hvor þjóðin kemst á heimsmeistaramótið í Túnis á næsta ári. Leikirnir við Grikki verða ytra 25. og 26.

ÍSLENSKA landsliðið í handknattleik mætir Grikkjum í tveimur æfingaleikjum fyrir leikina gegn Ítölum sem skera úr um hvor þjóðin kemst á heimsmeistaramótið í Túnis á næsta ári. Leikirnir við Grikki verða ytra 25. og 26. maí en fyrri leikurinn við Ítalíu verður laugardaginn 29. maí og sunnudaginn 6. júní fer síðari leikurinn fram í Laugardalshöll.

Helgina 21.-23. maí er áætlað að íslenska landsliðið taki þátt í móti í Belgíu og að sögn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar landsliðsþjálfara verður uppistaðan í því liði leikmenn sem spila hér heima ásamt þeim leikmönnum sem eru á "lausu" erlendis. Eftir mótið í Belgíu verður haldið til Grikklands.

Guðmundur er að bíða eftir að fá í hendur upptökur af leikjum Ítala í undankeppni HM en Ítalir voru í riðli með Austurríkismönnum og Hvít-Rússum og stóðu uppi sem sigurvegarar á hagstæðari markatölu en allar þjóðirnar hrepptu fjögur stig.

"Ítalir eru með mjög frambærilegt lið og það segir sína sögu að þeim hafi tekist að vinna bæði Austurríkismenn og Hvít-Rússa. Við þurfum að vanda okkur gegn Ítölunum og við getum ekki gengið að því vísu að það verði létt verkefni. Í liði Ítala eru fyrrum Rússar og Júgóslavar, þrír talsins, svo þetta eru andstæðingar sem við verðum að taka með fullri alvöru," sagði Guðmundur Þórður.