Í SKÝRSLU Umhverfisstofnunar um stöðu skólphreinsunar á Íslandi segir að allt að 80% sveitarfélaga séu vart byrjuð á úrbótum í skólphreinsun.

Í SKÝRSLU Umhverfisstofnunar um stöðu skólphreinsunar á Íslandi segir að allt að 80% sveitarfélaga séu vart byrjuð á úrbótum í skólphreinsun. Þessi staða sé óviðunandi og ekki verði séð hvernig þessi sveitarfélög ætli að uppfylla kröfur sem settar eru í reglugerð um fráveitur og skólp, en samkvæmt henni verða öll þéttbýlissvæði að vera komin með skólphreinsun í lok árs 2005.

Samkvæmt reglugerðinni, sem kom út árið 1999, eiga öll þéttbýlissvæði að vera komin með skólphreinsun í árslok 2005. Í dreifbýli og þar sem ekki er sameiginleg fráveita er gert ráð fyrir rotþró og siturlögn eða sambærilegum búnaði. Enginn frestur er gefinn í reglugerðinni.

"Mikill árangur hefur náðst í skólphreinsun þéttbýlisstaða á Íslandi á síðustu 10 árum en liðlega 60% íbúa landsins eru nú tengd fráveitum með skólphreinsun. Þennan árangur er hins vegar fyrst og fremst að þakka framkvæmdum fárra sveitarfélaga. Það að allt að 80% sveitarfélaga séu vart byrjuð að taka til hendinni í úrbótum í þéttbýli er óviðunandi ástand því ekki verður séð hvernig þessi sveitarfélög hyggjast ná að uppfylla hreinsikröfur reglugerðarinnar [...] innan tilskilinna tímamarka," segir í skýrslunni.

Helgi Jensson, forstöðumaður á Umhverfisstofnun, segir að stofnunin hefði viljað að sveitarfélög væru komin lengra á veg með verkefnið.

Eðlilegur tímafrestur?

Hann bendir þó á að lögin sem reglugerðin er byggð á hafi verið sett á grunni EES-samningsins og flest aðildarríkja samningsins hafi verið komin lengra en Íslendingar í hreinsun á skólpi á þeim tíma. Því sé spurning hvort sveitarfélögunum hafi verið gefinn eðlilegur tímafrestur til að ljúka nauðsynlegum framkvæmdum. Erfitt sé að svara hvernig eftirlitsstofnanir muni bregðast við verði reglugerðinni ekki breytt og sveitarfélögin standist ekki settar kröfur, en þær hafi heimildir til að beita áminningum, sektum og lokunum.