Sverrir Leósson
Sverrir Leósson
Þeir láta ekki bjóða sér sofandahátt bæjarstjórnarinnar í málefnum aldraðra lengur.

ÉG HEF á undanförnum misserum skrifað nokkrar greinar í Morgunblaðið til að vekja athygli á þeim aðbúnaði, sem stjórnendur Akureyrarbæjar bjóða öldruðum bæjarbúum. Þótt ég segi sjálfur frá held ég að þessi skrif hafi ýtt við fólki. Í kjölfarið hefur farið af stað mikil umræða um þessi mál og sem betur fer virðist það hafa orðið til þess, að bæjarstjórnarmenn hafa vaknað af löngum Þyrnirósarsvefni. Jafnvel er ekki útilokað, að Jakob Björnsson, oddviti framsóknarmanna, hafi aðeins rumskað. Staðreyndin er nefnilega sú, að það er bæjarstjórnendum til háborinnar skammar hvernig búið hefur verið að þessum aldurshópi.

Á undanförnum árum hafa tugir aldraðra Akureyringa beðið eftir rými á dvalarheimilum á vegum bæjarins. Þar af hafa lengstum verið um þrír tugir aldraðra, sem hafa verið í sárri þörf fyrir hjúkrun. Þetta fólk hefur átt lífið undir heimahjúkrun og ættingjum, sem sumir hverjir hafa þurft að minnka við sig vinnu til að geta sinnt mömmu eða pabba, afa eða ömmu. Þrátt fyrir þetta var ekkert gert ár eftir ár til að bæta úr ástandinu. Það er ríflega hálfur annar áratugur frá því að stjórnendur bæjarins hafa gert eitthvað róttækt til að bæta hag aldraðra, sem þurfa á umönnun og hjúkrun að halda.

Framsóknarmenn fóru mikinn í síðustu bæjarstjórnarkosningum og lofuðu úrbótum. Þeir skrifuðu síðan undir samning við flokksbróður sinn, Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, þegar hann var að ganga til alþingiskosninga. Samkvæmt því áttu framkvæmdir við nýbyggingu fyrir aldraða á Akureyri löngu að vera hafnar. Ekkert bólar á framkvæmdum enn, enda kom í fréttum í vikunni, að verið er að semja við hönnuði. Þessi bygging verður því ekki tilbúin fyrr en 2006 í fyrsta lagi.

Eftir að stjórnendur bæjarins höfðu legið undir feldi í nokkra mánuði í leit að húsnæði til bráðabirgða datt þeim snjöll lausn í hug. Hvernig væri að gera upp gamla elliheimilið í Skjaldarvík? Það hefur staðið autt síðan í lok síðustu aldar, þegar vistmenn þar voru fluttir á burt, sumir nauðugir, og settir í Kjarnalund. Síðan hafa þessar eignir ekki orðið bænum til gagns, það var Stefán heitinn Jónsson sem kom þessu elliheimili upp og gaf bænum síðan eignirnar og jörðina.

Hvernig stjórnendur bæjarins hafa spilað úr þessari stórgjöf er enn ein skömmin í hatt bæjarins varðandi aðbúnað fyrir aldraða.

En batnandi mönnum er best að lifa. Loksins vöknuðu stjórnendur bæjarins af dvala og áttuðu sig á, að með tiltölulega litlum tilkostnaði mætti endurbæta eignirnar til að gera þar boðlegt hjúkrunarheimili samkvæmt kröfum nútímans.

Og þá skorti ekki upp á stórhuginn maður minn; ákveðið var að hafa þetta fyrir fimmtán manns, þótt ljóst væri að ríflega helmingi fleiri bíða í sárri neyð eftir vistun á slíku hjúkrunarheimili.

Hefði nú ekki mátt hugsa aðeins stærra?

Að mínu mati þarf að horfa til framtíðarskipulags um nýtingu mannvirkja og landkosta í Skjaldarvík. Þetta var "út úr" eins og sagt var, en samgöngur nútímans hafa eytt þeim þröskuldi. Þess vegna finnst mér vel koma til greina, að byggja þarna upp öldrunarþjónustu til framtíðar, jafnvel samhliða annarri mannlegri ræktun til líkama og sálar fyrir alla aldursflokka. Þarna er kjörið svæði til útivistar; þarna mætti koma upp golfvelli og göngustígum, svo dæmi séu tekin. Aðstæður frá náttúrunnar hendi gætu ekki verið betri.

Það mega stjórnendur bæjarins á undanförnum árum eiga, að þeir hafa lagt nokkurn metnað í uppbyggingu heimahjúkrunar og félagsaðstöðu fyrir aldraða, þannig að fólk geti dvalið sem lengst á eigin vegum í eigin húsnæði. Starfsmenn dvalar- og hjúkrunarheimilanna, heimahjúkrunar og félagsmiðstöðvanna hafa raunar bjargað því sem bjargað verður í þessum málaflokki með einstaklega fórnfúsu starfi, langt umfram það sem kjarasamningar og launakjör krefjast. En nú ætla stjórnendur bæjarins enn að höggva að öldruðum með því að skerða þessa þjónustu eða leggja á hana gjöld, sem aldraðir standa ekki undir. Þar að auki á að takmarka eftirgjöf á fasteignaskatti til aldraðra og skapa þeim alls konar amstur við að fá þessa eftirgjöf. Hafa þeir nú ekki greitt nóg í bæjarhítina í gegnum árin? Á sama tíma og bæjarstjórnarmeirihlutinn lætur sig hafa að plokka nokkrar krónur upp úr vösum aldraðra kastar hann 30 milljónum króna í hlutafé í kjötiðnaðarfyrirtækinu Norðlenska, sem hefur verið á brauðfótum í mörg ár. Hvað mega dugandi Kjarnafæðismenn segja, sem eru í harðri samkeppni við þetta "bæjarkjötfyrirtæki", sem KEA á að stærstum hluta? Hanga enn leyniþræðirnir milli Framsóknar og KEA í bæjarstjórn?

Umræðan að undanförnu virðist hafa leyst krafta úr læðingi. Aldraðir hafa verið seinþreyttir til vandræða við bæjarstjórnarmenn og þeir hafa gengið á lagið. En seinagangurinn við að koma upp hjúkrunarrýmum, ný gjaldtaka á félagsþjónustuna, auknir fasteignaskattar og sleifarlag við að koma upp félagsþjónustu á Bjargi virðist vera kornið sem fyllti mælinn.

Aldraðir hafa látið heyra í sér. Þeir hafa komið mótmælum sínum á framfæri við stjórnendur bæjarins. Aldraðir láta ekki bjóða sér þetta lengur. Húrra fyrir þeim. Nú verður formaður félagsmálaráðs, Jakob Björnsson, og hans menn í Framsókn, sem töluðu með fagurgala til aldraðra fyrir síðustu kosningar, að bretta upp ermar og láta verkin tala. Aldraðir sætta sig ekki við annað.

Sverrir Leósson skrifar um aldraða á Akureyri

Höfundur er útgerðarmaður á Akureyri.