LIÐSMENN alþjóðlegu rústabjörgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hófu ekki leit í gærkvöldi þegar þeir komu í marokkósku borgina Al Hoceima. Sveitin verður send á annað svæði í dag.

LIÐSMENN alþjóðlegu rústabjörgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hófu ekki leit í gærkvöldi þegar þeir komu í marokkósku borgina Al Hoceima. Sveitin verður send á annað svæði í dag. Hjálpargögnum var dreift til fólks sem hafði misst heimili sín í jarðskjálftanum aðfaranótt þriðjudags. Ásgeir Böðvarsson, stjórnandi sveitarinnar, sagði í gærkvöldi að búið væri að bjarga öllum á þessu svæði og enga örvæntingu að finna hjá fólkinu. Heil hús sæjust inni á milli fallinna bygginga og margir hefðust við í tjöldum.

Alþjóðabjörgunarsveitin kom til borgarinnar um klukkan 19 í gærkvöldi og átti fund með vettvangsstjóra björgunaraðgerða. Að sögn Ásgeirs fengu liðsmenn þau fyrirmæli að drífa sig í hvíld eftir ferðalagið til að vera reiðubúnir í leit að fólki í rústum húsa í dag. Gerði hann ráð fyrir að sveitin yrði færð á annað svæði þar sem meiri þörf væri fyrir hana. Hann vissi ekki hvert og svo virtist sem ákveðið samskiptaleysi væri á milli björgunaraðila á svæðinu og það vantaði heildaryfirsýn.

Ásgeir sagði þá ekki þreytta eftir langt ferðalag enda hefðu allir verið búnir að stilla sig inn á að þurfa að vinna um nóttina. Hann sagði að menn yrðu reiðubúnir í verkefni dagsins.