BAKTERÍA af gerðinni meningókokkar B, sem getur m.a. valdið heilahimnubólgu, hefur greinst í einu barni í leikskóla í Hafnarfirði og grunur leikur á sýkingu hjá öðru barni í sama skóla.

BAKTERÍA af gerðinni meningókokkar B, sem getur m.a. valdið heilahimnubólgu, hefur greinst í einu barni í leikskóla í Hafnarfirði og grunur leikur á sýkingu hjá öðru barni í sama skóla. Að sögn Þórólfs Guðnasonar, yfirlæknis á sóttvarnarsviði landlæknis, verða öll börnin í skólanum, tæplega 100, ásamt starfsmönnum, sett á sýklalyf fyrir helgi, eða á annað hundrað manns.

Foreldrum barnanna í skólanum var gert viðvart um þetta í gær og fær heimilisfólk þeirra tveggja barna, sem hafa greinst eða hafa grun um sýkingu, einnig sýklalyfjameðferð. Þórólfur vill ekki gefa upp hvaða leikskóli þetta er en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er það Álfasteinn við Háholt í Hafnarfirði.

Að sögn Þórólfs hefur það ekki verið staðfest að seinna tilvikið á leikskólanum sé bakteríusýking en einkennin hafi verið þau sömu og í fyrra tilvikinu í skólanum. Um 4 og 5 ára börn er að ræða, strák og stelpu, og voru þau lögð inn á Barnaspítala Hringsins. Að sögn læknis var líðan þeirra góð miðað við aðstæður og sýklalyfjagjöf farin að virka.

Þórólfur segir meningókokka B vera alvarlega bakteríu sem meðhöndla þurfi strax til að koma í veg fyrir frekari einkenni eða útbreiðslu. Bóluefni er ekki til við meningókokkum B en öll börn voru bólusett fyrir tæpum tveimur árum við bakteríu af C-stofni. Þórólfur segir B-stofninn alltaf vera viðloðandi, áður fyrr hafi 10-15 tilfelli á ári verið algeng en í fyrra hafi þau verið innan við 10.