Reykjanesbær | "Út í bæ" er yfirskrift þemaviku sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er með. Eins og hún ber með sér eru nemendur skólans þessa dagana víðs vegar um bæinn að spila.

Reykjanesbær | "Út í bæ" er yfirskrift þemaviku sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er með. Eins og hún ber með sér eru nemendur skólans þessa dagana víðs vegar um bæinn að spila.

Nemendum og kennurum hefur alls staðar verið vel tekið, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá skólanum, en meðal þeirra stofnana sem nemendur heimsækja í vikunni eru allir leikskólar bæjarins, bæjarskrifstofur Reykjanesbæjar og félagsaðstaða eldri borgara.

Í þemavikunni stendur Tónlistarskólinn fyrir hljóðfærakynningu fyrir alla nemendur í 2. bekk grunnskólanna, en þeir eru nemendur forskóladeildar Tónlistarskólans og munu ljúka þar námi í vor.

Strax að lokinni þemavikunni heldur Tónlistarskóli Reykjanesbæjar upp á Dag tónlistarskólanna, sem er næstkomandi laugardag. Miklir tónleikar verða haldnir í Kirkjulundi í samvinnu allra tónlistarskólanna á Suðurnesjum.