María Gunnlaugsdóttir
María Gunnlaugsdóttir
Sá sem vegur að foreldri, vegur í leiðinni að barni...

ÉG er ein af forsvarskonum í félagi sem kallast Fjölskylduvernd og vil koma á framfæri viðfangsefnum þess.

Félagið hyggst afla upplýsinga um helstu umkvörtunarefni foreldra í meðförum opinberra starfsmanna í málefnum barna.

Félagið ætlar að koma þeim upplýsingum á framfæri og krefjast úrbóta á því sem miður fer í þeim meðförum.

Félagið mun koma á tengslum milli foreldra til gagnkvæms stuðnings í ýmsu sem varðar meðferð vistunar-, fóstur-, umgengnis- og forsjármála. Tilgangurinn er að félagsmenn geti stutt hver annan, hjálpað og miðlað upplýsingum sín á milli.

Félagið hyggst standa fyrir fyrirlestrum og annarri fræðslu í tengslum við ofangreind málefni.

Við í félaginu höfum orðið áþreifanlega varar við mikla þörf fyrir vettvang af þessu tagi. Þar er helst að nefna að mörgum foreldrum þykir að sér vegið með lögbrotum, virðingarleysi og annarri hegðun sem veldur áföllum á heimilum.

Svo virðist sem sumir starfsmenn, sem í mörgum tilvikum eru sérstaklega ráðnir til að gæta hagsmuna barna, hafi hvorki reglugerðir, verkferla sína né starfslýsingar að leiðarljósi. Ekkert eftirlit virðist vera með störfum þeirra. Hvergi hefur verið hægt að koma á framfæri kvörtunum, óskum um leiðréttingar né er hægt að kæra í þessum málum.

Framkomu þeirra við foreldra má oft líkja við aðför. Sá sem vegur að foreldri, vegur í leiðinni að barni. Þannig skerða þessir starfsmenn möguleika barna á að lifa við öryggi og vellíðan.

Það er athyglisvert að það virðast aðallega konur verða fyrir þessu þar sem öll mál á borði félagsins hingað til eru reynslusögur mæðra, flestar þeirra einstæðar.

Við viljum hvetja foreldra og annað áhugafólk til að hafa samband. Netfang okkar er bjorgin@strik.is.

María Gunnlaugsdóttir skrifar um málefni barna

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og móðir.