Birgir Ari Hilmarsson, formaður Siglingasambands Íslands.
Birgir Ari Hilmarsson, formaður Siglingasambands Íslands.
"ÞAÐ verður engin kúvending í stjórn sambandsins en ljóst er að við höfum í hyggju að leggja aukinn þunga í útbreiðslu- og kynningarmál íþróttarinnar. Fyrst um sinn verður hins vegar megináhersla lögð á að styðja við bakið á Hafsteini Ægi Geirssyni til að geta náð því markmiði að keppa á Ólympíuleikunum í Aþenu í sumar," segir Birgir Ari Hilmarsson, nýkjörinn formaður Siglingasambands Íslands (SÍL), í samtali við Morgunblaðið.

Birgir tók við formennsku af Páli Hreinssyni á ársþingi SÍL um síðustu helgi. Birgir hefur verið í stjórn SÍL sl. tíu ár og sagðist ekki hafa getað skorist undan að taka að sér formannsstarfið þegar eftir var leitað þegar ljóst var að Páll gæfi ekki kost á sér til endurkjörs.

Birgir Ari segir það skipta íþróttina hér á landi miklu máli að eiga keppanda á Ólympíuleikunum í sumar og því verði staðið þétt við bakið á Hafsteini Ægi á næstu vikum og mánuðum. Hann eigi nokkuð góða möguleika á að taka þátt í leikunum, en hann var einnig með á ÓL í Sydney fyrir fjórum árum. Hafsteinn hafi æft í Frakklandi í vetur, sé heima í fríi um þessar mundir en haldi á ný út í mars þar sem hann stundar æfingar og keppni af krafti fram að heimsmeistaramótinu sem fram fer í Tyrklandi í maí. Þá kemur í ljós hvort hann verður á meðal þeirra fjörutíu siglingamanna sem keppa í laser-kænuflokki á leikunum. "Hver þjóð fær aðeins eitt sæti á leikunum og þegar hafa 32 þjóðir tryggt sér keppnisrétt. Hafsteinn er einn þeirra sem kemur til með að berjast um eitt þeirra átta sæta sem eftir á að ráðstafa og ég tel möguleika hans á því að tryggja sér eitt þeirra vera raunhæfa, en þetta kemur allt í ljós að heimsmeistarakeppninni lokinni," segir Birgir sem var Hafsteini til halds og trausts á Ólympíuleikunum í Sydney.

Nú eru sjö siglingafélög virk á landinu en þau eru á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, á Akureyri og Ísafirði. Alls eru skráðir um 1.500 iðkendur hjá félögunum sjö og sagði Birgir að áhugi hefði aukist mikið á undanförnum árum, ekki síst vegna vaxandi áhuga á róðri. "Það hefur sannkölluð sprenging átt sér stað í róðraíþróttinni víða um land enda tiltölulega þægileg íþrótt að eiga við," segir Birgir sem ætlar ásamt stjórn sinni að leggja ríka áherslu á útbreiðslumál í vor og sumar. "Draumur okkar er að fara með nokkra báta á kerrum um landið og kynna siglingaíþróttina sem víðast því úti um landið er öll aðstaða fyrir hendi og einnig áhugi, það er bara spurningin um að virkja hann," segir Birgir Ari Hilmarsson, nýkjörinn formaður Siglingasambands Íslands.