"AUÐVITAÐ er aldrei hægt að fullyrða neitt fyrirfram, en ég tel að ef allt er eðlilegt þá eigum við að verða í baráttu við Armeníu um efsta sætið í 3.

"AUÐVITAÐ er aldrei hægt að fullyrða neitt fyrirfram, en ég tel að ef allt er eðlilegt þá eigum við að verða í baráttu við Armeníu um efsta sætið í 3. deild," segir Magnús Jónasson, formaður íshokkífélagsins Bjarnarins og íshokkífrömuður, þegar leitað var til hans í gær vegna fyrirhugaðrar keppni í 3. deild heimsmeistaramótsins í íshokki sem fram fer í Skautahöllinni í Laugardal 16. til 21. mars nk. Þá keppir íslenska landsliðið við Armena, Íra, Tyrki og Mexíkó í 3. deild heimsmeistaramótsins. Efsta þjóðin tryggir sér þátttökurétt í 2. deild heimsmeistaramótsins.

Írar og Armenar hafa ekki spreytt sig í fullorðinsflokki í íshokkí á alþjóðlegum mótum síðustu ár. Mexíkóar kepptu hér á landi fyrir tveimur árum og þá voru þeir lakari en Íslendingar. Tyrkir eiga að vera með lakasta liðið enda reka þeir lestina á styrkleikalista Alþjóða íshokkísambandsins.

"Það er samt aldrei að vita hversu sterkt Mexíkó er. Það getur vel verið að það hafi fengið Bandaríkjamenn með mexíkósk vegabréf til liðs við sig, en að öllu jöfnu eigum við að vera með sterkara lið," segir Magnús sem telur að það megi búast við sterku liði frá Armeníu vegna þess að þar sé hefð fyrir íþróttinni frá Sovét-tímanum. Armenar voru útilokaðir frá keppni á alþjóðlegu móti í fyrra þegar þeir hugðust tefla fram liði leikmanna sem allir voru með rússnesk vegabréf. "Þá setti Alþjóða íshokkísambandið Armenum stólinn fyrir dyrnar. Síðan hafa Armenar örugglega kippt sínum málum í liðinn, víst er að þeir mæta með löglegt lið núna, þótt það verður kannski skipað fyrrverandi Rússum," segir Magnús.

Nýlega valdi Peter Bolin, landsliðsþjálfari Íslands í íshokkí, hóp 23 leikmanna en auk þess hyggst hann velja til viðbótar nokkra leikmenn sem búa og leika í Evrópu, aðallega á Norðurlöndunum. Reiknað er með að þegar endanlegur æfingahópur verði klár þá skipi hann 26 leikmenn. Af þeim þarf Bolin síðan að velja 20 leikmenn, 18 útileikmenn og tvo markverði til þess að leika fyrir hönd Íslands í 3. deildar keppninni.