Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari sá Snorra Stein Guðjónsson skora átta mörk fyrir Grosswallstadt gegn Lemgo, en það dugði ekki til sigurs - heimamenn unnu 31:25.
Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari sá Snorra Stein Guðjónsson skora átta mörk fyrir Grosswallstadt gegn Lemgo, en það dugði ekki til sigurs - heimamenn unnu 31:25. — Ljósmynd/Günter Schröder
GUÐMUNDUR Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, hefur undanfarna daga verið í Þýskalandi þar sem hann hefur ekki aðeins fylgst með íslensku landsliðsmönnunum í leikjum liða sinna heldur hefur hann rætt við þá undir fjögur augu. Nýafstaðið Evrópumót hefur verið krufið til mergjar og verkefnin sem fram undan eru kynnt fyrir þeim.

Guðmundur heldur til Spánar í dag í sömu erindagjörðum og ræðir við landsliðsmennina sem þar leika.

Guðmundur sá Sigfús Sigurðsson fara á kostum með Magdeburg í leiknum við ungverska liðið Fotex Vesprém í Meistaradeildinni um síðustu helgi og í fyrrakvöld fylgdist hann með Snorra Steini Guðjónssyni í leik Grosswallstadt gegn Lemgo þar sem Snorri Steinn átti mjög góðan leik og skoraði 8 mörk.

"Ég var virkilega ánægður með frammistöðu Sigfúsar og Snorra. Báðir áttu þeir afbragsleik og virka í mjög góðu formi," sagði Guðmundur við Morgunblaðið í gær.

Guðmundur hóf fundarherferð sína á mánudaginn þegar hann hitti Sigfús Sigurðsson. Í gærdag sátu Snorri Steinn, Rúnar Sigtryggsson og Einar Örn Jónsson á fundi með landsliðsþjálfaranum í Frankfurt og í gærkvöldi ræddi hann við Guðjón Val Sigurðsson, Róbert Sighvatsson og Gunnar Berg Viktorsson eftir leik Wetzlar og Essen. Í dag kemur Guðmundur að máli við Ólaf Stefánsson á Spáni og Patrek Jóhannesson hittir hann á laugardaginn en Guðmundur ætlar að sjá Patrek og Heiðmar Felixson í leik með Bidasoa gegn Teucro á laugardaginn. Guðmundur lýkur svo við að ræða við lærisveina sína í Frankfurt á sunnudaginn þegar hann spjallar við Guðmund Hrafnkelsson og Jaliesky Garcia.

Hvað vakir fyrir þér að hitta landsliðsmennina og ræða við þá undir fjögur augu?

"Ég er að fara yfir Evrópumótið og ræða ýmsa hluti við þá varðandi keppnina og það sem fram undan er. Mér finnst nauðsynlegt að fara yfir Evrópumótið með leikmönnunum núna þegar ég er búinn að fara yfir leiki okkar til hlítar. Það eru hlutir sem ég vil ræða við leikmennina einslega svo sem frammistöðu þeirra sjálfra og liðsins. Mér finnst mjög mikilvægt að gera þetta núna og taka stöðuna á þeim gagnvart framhaldinu. Þetta er bara eins og á vinnustöðum. Það er nauðsynlegt að ræða við þá aðila sem maður starfar með. Ég vil að menn opni sig og láti sínar skoðanir í ljós, bæði gagnvart því sem ég er að gera og öðru sem lýtur að liðinu."

Guðmundur segist hafa ákveðið að hitta leikmenn sína og ræða við þá einn og einn eftir Evrópumótið í Slóveníu. "Þegar ég var búinn að horfa á leikina og kryfja þá frá a til ö fannst mér ég verða að fara yfir ákveðin atriði með leikmönnunum. Ég hef svo sem áður farið út og fylgst með mönnum í leikjum en núna er ég kominn út á aðeins öðrum forsendum. Ég er að hitta hvern og einn og ræða við þá sérstaklega."

Eftir að hafa skoðað leiki ykkar á Evrópumótinu mjög ítarlega, hvað finnst þér helst hafa farið úrskeiðis?

"Það sem var gegnumgangandi hjá okkur var að við spiluðum varnarleikinn ekki nægilega vel og þá var mjög áberandi hversu illa við fórum með upplögð marktækifæri hvort sem það var eftir venjulegar sóknir eða hraðaupphlaup. Þetta eru hlutir sem ég vil fara yfir með strákunum og fleiri sem snúa að liðinu sem ég vil bara hafa milli mín og leikmannanna. Það byggðust upp miklar væntingar fyrir Evrópumótið og mönnum fannst nánast formsatriði að vinna riðilinn. Eftir á að hyggja held ég að allir sjái það að það var ekki raunhæft."

Þið settuð ykkur sjálfir þau markmið að vinna riðilinn. Voru það þá of háleit markmið?

"Að mörgu leyti tel ég svo hafa verið."

Eitthvað hefur kvisast út að ósætti hafi verið í landsliðshópnum í Slóveníu. Er það rétt?

"Þetta er ekki rétt og ég ræddi þetta mál við Sigfús. Hann lét í veðri vaka í sjónvarpsviðtali að eitthvert slíkt hefði verið í gangi en það á alls ekki við rök að styðjast. Við áttum ekki við nein slík vandamál að glíma. Það var ekkert ósætti í hópnum á nokkurn hátt en það er kannski eðlilegt að menn hafi pirrast inni á vellinum þegar hlutirnir gengu ekki eins og þeir áttu að ganga

Það verður í nógu að snúast hjá íslenska landsliðinu á komandi mánuðum. Í lok maí og byrjun júní mæta Íslendingar Ítölum í tveimur einvígisleikjum um þátttökurétt á HM í Túnis á næsta ári og í ágúst eru Ólympíuleikarnir á dagskrá en þar verða Íslendingar fulltrúar Norðurlandanna.

"Áætlunin fyrir sumarið og undirbúningurinn fyrir Ólympíuleikana er klár en þó hefur ekki verið gengið frá leikjaplani. Ég reikna með að undirbúningurinn fyrir Ólympíuleikana hefjist upp úr miðjum júní," segir Guðmundur.

Guðmundur Hilmarsson skrifar