Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanni í gær um kostnaðarhlutdeild sjúklinga.
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanni í gær um kostnaðarhlutdeild sjúklinga. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓN Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi í gær að það væri rétt hjá Rúnari Vilhjálmssyni, prófessor við Háskóla Íslands, að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í sjúkratryggingum hefði aukist á sl. fimmtán árum.

JÓN Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi í gær að það væri rétt hjá Rúnari Vilhjálmssyni, prófessor við Háskóla Íslands, að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í sjúkratryggingum hefði aukist á sl. fimmtán árum. Kom þetta fram í svari ráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Sagði hún það sífellt algengara að efnalítið fólk gæti ekki leyst út lyfin sín eða leitað sér læknisþjónustu.

"Kostnaðarhlutdeild sjúklinga hefur almennt talað aukist frá því fyrir rúmum 15 árum," sagði ráðherra en nefndi þó engar tölur í því sambandi. Í niðurstöðu Rúnars kemur hins vegar fram að kostnaðarhlutdeildin hafi aukist um 70% á umræddu tímabili. Ráðherra tók þó fram að hafa yrði allan varann á þegar um væri að ræða athuganir á svo löngu tímabili. "Samanburðarár eru í þessu tilliti tekin út úr svo mismunandi landslagi að það er næstum svo að borin séu saman epli og appelsínur," sagði hann. "Í þessu sambandi verður einnig að hafa hugfast að hlutur sjúklinga í greiðslum vegna læknisþjónustu breytist mjög mismunandi eftir því hvaða þjónustu við erum að ræða um."

Ráðherra sagði sömuleiðis að sú niðurstaða Rúnars að útgjöld sjúklinga séu farin að bitna á aðgengi að þjónustunni komi nokkuð á óvart. Til dæmis hafi komið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá september 2002 að aðsókn til allra þátta heilbrigðisþjónustunnar hafi stóraukist á tímabilinu 1997 til 2001. Ásta Möller, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á í umræðunni að kostnaðarhlutdeild heimilanna í heilbrigðisþjónustunni væri lægri hér á landi en í öðrum löndum innan OECD. "Hún hefur verið hér í kringum 15%," útskýrði hún.

Þjóðarsátt rofin

Jóhanna Sigurðardóttir benti hins vegar á könnun um heilbrigðisþjónustuna þar sem kæmi fram að fjórði hver einstaklingur frestaði eða hætti við að fara til læknis vegna kostnaðar. Aðallega væri þar um að ræða ungt fólk, á aldrinum 18 til 24 ára, foreldra barna og fráskilda. "Þetta sýnir ljóslega að rofin hefur verið þjóðarsátt um að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag og staðfestir það sem haldið hefur verið fram að í vaxandi mæli geti efnalítið fólk ekki leyst út lyfin sín eða leitað læknisþjónustu." Sagði hún þetta ljótan blett á okkar velferðarþjónustu.