KENNURUM með kennsluréttindi fjölgaði um 107 í fyrra, eða 2,8%, frá fyrra ári. Kennurum án kennsluréttinda fækkaði um 61 frá árinu áður, eða um 6,6%.

KENNURUM með kennsluréttindi fjölgaði um 107 í fyrra, eða 2,8%, frá fyrra ári. Kennurum án kennsluréttinda fækkaði um 61 frá árinu áður, eða um 6,6%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um starfsfólk í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert. Starfsmenn við kennslu í grunnskólum á Íslandi voru 4.743 í október sl. og hefur fjölgað um 46, eða um 1,0%, frá árinu áður. Þetta er nokkru minni fjölgun en undanfarin ár, en kennurum fjölgaði um 4,6% á milli áranna 2001 og 2002.

Starfsfólki við kennslu í grunnskólum hefur fjölgað ár frá ári, en haustið 1998 voru 4.045 kennarar í grunnskólum landsins. Skýrist fjölgunin m.a. af því að grunnskólanemendum hefur fjölgað og einsetning skóla staðið yfir.

Alls eru 3.873 kennarar með kennsluréttindi starfandi í grunnskólum landsins, eða 81,7% alls starfsfólks við kennslu. Hlutfallið hefur hækkað um 1,5 prósentustig frá haustinu 2002. Frá því Hagstofan hóf söfnun upplýsinga um kennara fór þetta hlutfall hæst 1999, í 83,5%.

Kvenskólastjórum hefur fjölgað um fjóra frá fyrra ári þrátt fyrir að skólastjórum hafi fækkað um fimm. Eru konur nú 43% skólastjóra. Kvenaðstoðarskólastjórum hefur hins vegar fækkað um sjö og eru þær 62% aðstoðarskólastjóra.

Kennurum með kennsluréttindi hefur fjölgað hlutfallslega mest á Austurlandi, um fjögur prósentustig. Á höfðuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur fjölgaði kennurum með kennsluréttindi um 3,1 prósentustig og á Vestfjörðum þrjú prósentustig. Á Suðurlandi fækkaði kennurum með kennsluréttindi um 3,3 prósentustig. Hlutfall kennara sem hafa kennsluréttindi er mun hærra á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Alls hafa tæplega 91% kennara á höfuðborgarsvæðinu kennsluréttindi en utan höfuðborgarsvæðisins er hlutfall réttindakennara á bilinu 56-76%, hæst á Suðurlandi.

Starfsfólki við kennslu hefur fjölgað í aldurshópunum yfir fimmtugu frá hausti 2002, en kennurum undir 35 ára aldri hefur fækkað. Tæplega 300 kennarar eru á sjötugsaldri og fara á eftirlaun á næstu árum.