Vilja endurbyggja birgðastöðina | Olíudreifing ehf. og Skeljungur hf. vilja ekki flytja olíubirgðastöð félaganna niður á Suðurtanga á Ísafirði heldur endurbyggja núverandi olíubirgðastöð við Suðurgötu.

Vilja endurbyggja birgðastöðina | Olíudreifing ehf. og Skeljungur hf. vilja ekki flytja olíubirgðastöð félaganna niður á Suðurtanga á Ísafirði heldur endurbyggja núverandi olíubirgðastöð við Suðurgötu. Þetta kemur fram í bréfi Olíudreifingar til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þar sem ítrekuð er ósk félaganna um að Ísafjarðarbær úthluti þeim viðbótarlóð við hlið núverandi birgðastöðvar. Frá þessu er greint á fréttavef Bæjarins besta.

Olíudreifing áætlar að það kosti fimmtíu milljónum króna meira að byggja upp nýja olíubirgðastöð á Suðurtanga en að endurbyggja og stækka núverandi birgðastöð við Suðurgötu. "Það er því ósk félaganna beggja að aðilar komi sér saman um lausn sem tryggi að núverandi olíubirgðastöð félaganna á staðnum verði endurbyggð." Ósk um viðbótarlóð segir Olíudreifing tilkomna vegna augljósra þarfa félaganna fyrir að lagfæra ástand núverandi birgðastöðvar og að koma fyrir bensínsbirgðageymum ásamt nýju áfylliplani sem hvort um sig auki öryggi við geymslu og meðhöndlun eldsneytis í stöðinni. "Af hálfu Olíudreifingar ehf. og Skeljungs hf. er brýnt að niðurstaða komist í þetta mál hið fyrsta svo hefjast megi handa við endurbyggingu eldsneytisbirgðastöðvar félaganna svo skjótt sem auðið er þannig að stöðin komist í ásættanlegt lag m.t.t. öryggis og ásýndar."

Lengi vel lögðu hafnaryfirvöld til lóð undir nýja olíubirgðastöð neðst í Suðurtanga en nú er reiknað með lóð undir birgðastöðina nær Sundahöfn.