FRANSKA stjórnin hvatti í gær til þess að friðargæslulið yrði sent þegar í stað til Haítí þar sem uppreisnarmenn reyna að steypa Jean-Bertrand Aristide forseta af stóli og hafa þegar náð helmingi landsins á sitt vald.

FRANSKA stjórnin hvatti í gær til þess að friðargæslulið yrði sent þegar í stað til Haítí þar sem uppreisnarmenn reyna að steypa Jean-Bertrand Aristide forseta af stóli og hafa þegar náð helmingi landsins á sitt vald. Glundroði var á götum höfuðborgarinnar, Port-au-Prince, og vopnaðir hópar stuðningsmanna Aristide fóru ránshendi um borgina. Óttast er að blóðug átök blossi þar upp milli stuðningsmanna forsetans og uppreisnarmanna sem ætla að ráðast inn í borgina.

Dominique de Villepin, utanríkisráðherra Frakka, sagði að franska stjórnin hefði samið nýja friðaráætlun þar sem m.a. væri gert ráð fyrir friðargæsluliði á Haítí og aðstoð við að undirbúa forsetakosningar. Franskir embættismenn sögðu að dagar Aristide sem forseta væru senn taldir og Villepin gaf til kynna að Aristide ætti einskis annars úrkosti en að segja af sér.

Andstæðingar forsetans höfnuðu í gær alþjóðlegri friðaráætlun þar sem gert er ráð fyrir því að Aristide sitji út kjörtímabilið, eða til 2006, en völd hans verði skert.

Hvattir til að flýja ekki

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði að Haítíbúar, sem reyndu að flýja átökin á bátum til Bandaríkjanna, yrðu látnir snúa við og fara aftur til Haítí. Hann kvaðst vilja að friðargæslulið yrði sent til landsins eftir að pólitísk lausn fyndist á deilu Aristide og andstæðinga hans.

París, Port-au-Prince. AFP.