GEIR H. Haarde fjármálaráðherra lét þau ummæli falla í Pressukvöldi, þætti Sjónvarpsins, í gærkvöldi að það kæmi vel til greina hjá sér að breyta til í haust og hann myndi hugsa sig vel um áður en hann segði nei við því að fara í utanríkisráðuneytið.

GEIR H. Haarde fjármálaráðherra lét þau ummæli falla í Pressukvöldi, þætti Sjónvarpsins, í gærkvöldi að það kæmi vel til greina hjá sér að breyta til í haust og hann myndi hugsa sig vel um áður en hann segði nei við því að fara í utanríkisráðuneytið.

Var Geir spurður að þessu í tilefni ummæla Davíðs Oddssonar í þættinum Í brennidepli sl. sunnudagskvöld um að dómsmálaráðuneytið kæmi til greina hjá sér þegar hann hætti sem forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson tekur við af honum og fer úr utanríkisráðuneytinu.

Þegar Geir var spurður í þættinum hvort hann langaði ekki í utanríkisráðuneytið svaraði hann eftirfarandi: "Ég hef ekkert útilokað í þeim efnum, en það er auðvitað þingflokkurinn sem hefur síðasta orðið um það. Ég verð í haust, ef Guð lofar, búinn að sitja í fjármálaráðuneytinu í sex og hálft ár, lengur en allir nema tveir menn í sögu Stjórnarráðsins. Þar hefur margt áunnist og margt skemmtilegt gerst en auðvitað getur maður ekki neitað því að það kemur vel til greina að breyta til."

Síðan var Geir spurður hvort ekki yrði þá annasamt fyrir "verðandi formann" og vísað þar til formennsku í Sjálfstæðisflokknum og hann svaraði: "Það er margt framundan í utanríkismálum sem væri gaman að glíma við, alþjóðaviðskipti sérstaklega og þess háttar, en ég hef ekki gert þetta upp við mig og ég ræð þessu ekki. Þingflokkurinn ræður þessu og auðvitað koma fleiri menn til greina."

Næst var Geir spurður hvort ekki væri rökrétt að ætla að hann hefði, með sína menntun og sinn bakgrunn, áhuga á utanríkisráðuneytinu og þeim verkefnum sem þar væru. Hann svaraði þá:

"Ég hef alla tíð haft áhuga á utanríkismálum og ég mundi að minnsta kosti hugsa mig vel um áður en ég segði nei við því, ef það væri möguleiki."