LANDBÚNAÐARRÁÐHERRA hefur bannað innflutning á alifuglum frá Bandaríkjunum vegna hænsnapestar og gildir bannið í einn mánuð frá síðastliðnum þriðjudegi, eða til 23. mars næstkomandi.

LANDBÚNAÐARRÁÐHERRA hefur bannað innflutning á alifuglum frá Bandaríkjunum vegna hænsnapestar og gildir bannið í einn mánuð frá síðastliðnum þriðjudegi, eða til 23. mars næstkomandi. Ekki hefur verið um að ræða innflutning á hráum afurðum alifugla frá Bandaríkjunum hingað til lands og innflutningur á soðnum afurðum hefur verið sáralítill.

Í auglýsingu landbúnaðarráðuneytisins vegna þessa kemur fram að bannið taki til innflutnings til landsins á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá Bandaríkjunum, þar sem þar hafi komið upp hænsnapest, en hænsnapest sé skæður fuglasjúkdómur sem geti dreifst vegna milliríkjaviðskipta.

Gísli Halldórsson, dýralæknir inn- og útflutningseftirlits hjá yfirdýralækni, sagði að pestin hefði komið upp í Texas í Bandaríkjunum að kvöldi mánudagsins, daginn áður en auglýsing landbúnaðarráðherra er gefin út. Hins vegar væri ekki um nákvæmlega sama stofn að ræða og menn hefðu verið að glíma við í Asíulöndum og hefði verið í fréttum. Talað væri um vægar og skæðar hænsnapestir og þessi stofn væri skæður, en ekki alveg jafn illvígur, til dæmis gagnvart fólki, og sá sem hefði verið að koma upp í Asíulöndum að undanförnu.

Gísli sagði að þessar aðgerðir væru í samræmi við það sem gert hefði verið þegar hænsnapestin hefði komið upp í Asíu í endaðan janúar, en þá hefði verið sett innflutningsbann á það sem þaðan kæmi og það bann væri í gildi til loka mars.

Gísli sagði að menn væru á varðbergi vegna þessa þar sem svo mikil viðskipti væru með vörur á milli þessara heimsálfa og líklegasta smitleiðin, fyrir utan að smit bærist með mannfólkinu, væru flutningar á milli landa.

Enginn innflutningur á ósoðnu

Gísli sagði að ef varan væri soðin umfram 70 gráður væri talið alveg óhætt að flytja hana inn, þannig að ekki væri um að ræða að banna innflutning á soðnum fuglaafurðum. Því væri við að bæta að það hefði ekkert verið um innflutning á hráum afurðum alifugla frá Bandaríkjunum hingað til lands og raunar mjög óverulegur innflutningur á soðnum fuglaafurðum einnig.