VERULEGUR munur getur verið á vaxtarhraða þorsks við Ísland, jafnvel þó um sé að ræða þorsk af samliggjandi svæðum, samkvæmt rannsókn sem gerð var á vexti og kynþroska þorsks á á þremur samliggjandi hrygningarsvæðum við Suðvesturland.

VERULEGUR munur getur verið á vaxtarhraða þorsks við Ísland, jafnvel þó um sé að ræða þorsk af samliggjandi svæðum, samkvæmt rannsókn sem gerð var á vexti og kynþroska þorsks á á þremur samliggjandi hrygningarsvæðum við Suðvesturland.

Gróa Þóra Pétursdóttir, líffræðingur við Hafrannsóknastofnunina, gerði rannsóknina í tengslum við meistaraprófsritgerð sína í líffræði við Háskóla Íslands. Út frá mælingum á breidd árhringja í kvörnum frá þessum þremur svæðum mátti sjá að þorskur, sem hrygnir á fjörusvæðinu næst landi undan Eyrarbakka, vex hraðar, er lengri, þyngri og í betra ástandi heldur en jafngamall fiskur sem hrygnir utar og dýpra á Selvogsbanka og Grindavíkurdjúpi. Gróa segir að munurinn geti orðið allmikill. Þannig hafi 6 ára gamall þorskur á fjörusvæðinu vegið um 10 kíló en jafngamlir fiskar af hinum svæðunum undir 4 kílóum. Gróa segir mikilvægt að viðhalda og vernda erfðamengi þessara hópa, sérstaklega ef um aðskilda stofna er að ræða. Þorskur af fjörusvæðinu sé verðmæt útflutningsvara og því hafi mikið verið sótt á þessi svæði. Telur Gróa hugsanlegt að vernda þurfi þessi svæði meira en nú er gert, t.d. með því að minnka netamöskva enn frekar og loka svæðunum yfir allan hrygningartímann.