[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JOHN Kerry, öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts, sigraði örugglega í forkosningum og á kjörfundum í Utah, Hawaii og Idaho í fyrradag.

JOHN Kerry, öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts, sigraði örugglega í forkosningum og á kjörfundum í Utah, Hawaii og Idaho í fyrradag. Senda þessi ríki að vísu fremur fáa fulltrúa á flokksþing Demókrataflokksins en sigrarnir gera það enn líklegra en áður, að Kerry verði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust. Í kosningunum í Utah fékk Kerry 55% atkvæða en John Edwards, öldungadeildarþingmaður fyrir Norður-Karólínu, 30%.

Á kjörfundum í Idaho fékk Kerry 54% á móti 22% fyrir Edwards og á kjörfundum á Hawaii fékk Kerry 46%. Þar varð Dennis Kucinich, fulltrúadeildarþingmaður fyrir Ohio, annar með 30% en Edwards fékk aðeins 13%.

Hvetur þingið til aðgerða

Alan Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hvatti þingið í gær til að grípa strax til aðgerða til að rétta fjárlagahallann, einnig aðgerða sem gætu skert bætur í framtíðinni, til að forðast það að skapa jafnvel enn stærri vandamál, að því er segir í frétt CNN.

Þá ítrekaði Greenspan það mat sitt að nýlegar skattalækkanir ættu að vera varanlegar og sagði að betra væri að laga hallann með því að draga úr eyðslu en að hækka skatta.

Fyrstu ákærurnar

YFIRVÖLD í Bandaríkjunum hafa formlega ákært tvo fanga í Guantanamo, þá Ali Hamza Ahmed Sulayman al Bahlul og Ibrahim Ahmoud al Qosi, fyrir stríðsglæpi og verður fjallað um mál þeirra fyrir herrétti, þeim fyrsta í Bandaríkjunum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Voru mennirnir lífverðir og ráðgjafar Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna. Er al-Bahlul sagður hafa verið "áróðursmaður al-Qaeda og framleitt myndbönd þar sem morð á Bandaríkjamönnum voru vegsömuð". Al-Qosi er sagður hafa annast fjármál samtakanna og séð um vopnasmygl.

Sonur Zawahiris tekinn?

MEIRA en 20 al-Qaeda-liðar og Talibanar voru handteknir í Pakistan á þriðjudag en ekki hefur verið staðfest, að meðal þeirra sé Khalid, sonur Ayman al-Zawahiris, næstæðsta manns al-Qaeda. Var því haldið fram í pakistönsku blaði. Bandaríkjamenn telja sig aftur á móti hafa fellt nánasta aðstoðarmann Musab al-Zarqawis, sem grunaður er um að stýra aðgerðum al-Qaeda í Írak.