MEÐALVERÐ á mörgum grænmetistegundum hefur hækkað um 14-51% frá febrúar 2003 til febrúar 2004, samkvæmt nýrri samantekt Samkeppnisstofnunar á mánaðarlegum verðkönnunum í verslunum á höfuðborgarsvæðinu.

MEÐALVERÐ á mörgum grænmetistegundum hefur hækkað um 14-51% frá febrúar 2003 til febrúar 2004, samkvæmt nýrri samantekt Samkeppnisstofnunar á mánaðarlegum verðkönnunum í verslunum á höfuðborgarsvæðinu.

"Meðalverð á gulrótum hefur lækkað á tímabilinu og eins hefur meðalverð á sveppum og íslenskum tómötum lækkað lítillega, en meðalverð á hvítkáli hefur staðið í stað. Meðalverð á ávöxtum hefur hækkað, um 4-13%, ef undan eru skilin rauð epli, en meðalverð þeirra hefur lækkað um 4%," segir Samkeppnisstofnun.

Stofnunin hefur gert verðkannanir á ávöxtum og grænmeti mánaðarlega frá því í febrúar 2002.

Lækkaði í fyrstu

"Ef fyrst eru skoðaðar verðbreytingar milli áranna 2002 og 2003 kemur í ljós að meðalverð á flestum grænmetistegundunum lækkaði verulega eða um 16-61%, nema meðalverð á sveppum sem var óbreytt, en meðalverðið á gulrótum hækkaði um 14%. Á þessu sama tímabili lækkuðu allar ávaxtategundirnar um 10-29%," segir Samkeppnisstofnun ennfremur.

Þrátt fyrir þetta er meðalverð á þeim tegundum ávaxta og grænmetis sem birtar eru í meðfylgjandi töflu lægra nú en það var í fyrstu verðkönnun stofnunarinnar í febrúar 2002. "Hins vegar vekur hækkunin á milli áranna 2003 og 2004 athygli, sérstaklega sú hækkun sem hefur orðið á verði grænmetis. Eins og ítrekað hefur verið getið um í fyrri könnunum stofnunarinnar er verð á grænmeti og ávöxtum sveiflukennt og ræðst meðal annars af verði á erlendum mörkuðum, uppskeru og árstíma. Í samanburðinum hér að ofan er verið að bera saman meðalverð á sama árstíma. Samanburðurinn gefur vísbendingu um að meðalverð á grænmeti og ávöxtum hér á landi hafi verið að síga upp á við á undanförnum mánuðum. Til samanburðar má geta þess að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,3% á tímabilinu febrúar 2003 til febrúar 2004. Þegar matvöruliðurinn í vísitölu neysluverðs er skoðaður sérstaklega má sjá að sá liður hefur lækkað um 0,2% á umræddu tímabili," segir í samantekt stofnunarinnar.

Mikill munur er á hæsta og lægsta verði í verðkönnunum Samkeppnisstofnunar og er mikilvægt að neytendur geri sér grein fyrir þessum verðmun og versli þar sem verð er lágt, segir einnig.

"Með því móti veita neytendur verslunum aðhald og stuðla þar með að lægra vöruverði."

Könnunin er birt í heild á heimasíðu stofnunarinnar.

Breytingar voru gerðar á verðmyndun á grænmeti til neytenda fyrir tveimur árum. Þá lækkaði verð á grænmeti á bilinu 15- 55% að meðaltali. Um var að ræða 29 tegundir grænmetis.

Með breytingunum voru felldur niður 30% verðtoll af útiræktuðu grænmeti, sveppum og kartöflum og koma á magntolli. Til að lækka verð til neytenda voru felldir niður tolla af innfluttum agúrkum, tómötum og papriku en teknar voru upp beingreiðslur til framleiðenda út á þessar afurðir. Þá var rafmagnsverð til lýsingar lækkað og boðnir styrkir til úreldingar gróðurhúsa.