Ágúst Einarsson
Ágúst Einarsson
Enn vantar fé til háskólastigsins til að við stöndum jafnfætis næstu þjóðum.

MJÖG mikið hefur breyst í háskólasamfélaginu síðustu ár. Áhugi fyrir margvíslegu háskólanámi hefur aukist verulega og nýir háskólar hafa bæst við. Fyrir rúmum 20 árum voru 3.500 nemendur í Háskóla Íslands en nú eru þeir um 9.000. Þar af eru 1.200 manns í meistaranámi.

Nýir skólar eins og Listaháskólinn, Háskólinn í Reykjavík og Viðskiptaháskólinn á Bifröst hafa blómstrað. Háskólinn á Akureyri, Tækniháskólinn og Kennaraháskólinn hafa einnig vaxið mikið.

Hinum mikla áhuga á háskólanámi má líkja við það að fyrsta háskólagráða, BA- eða BS-próf, sé sambærileg stúdentsprófi fyrir 20 árum og landsprófi fyrir 40 árum. Við verðum að mæta þessum áhuga ungs fólks fyrir aukinni menntun.

Tryggja þarf fjölbreytni í háskólasamfélaginu

Háskóli Íslands er flaggskip íslenskra háskóla og þar hefur margt breyst en meira þarf til. Skólinn hefur stækkað svo mikið að hann verður að laga sig að breyttum aðstæðum. Stjórnkerfi Háskólans er orðið þunglamalegt og ekki í takt við breytta tíma. Viðskipta- og hagfræðideild er t.d. orðin jafnstór og Háskóli Íslands var allur fyrir rúmum 30 árum.

Háskólastarf á Íslandi á að vera fjölbreytt og einkennast af sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Háskólar eru með elstu stofnunum mannsins og í sérhverri þjóð býr mikil þekking á háskólastarfi. Þjóðir laga skipulag háskóla að eigin aðstæðum. Háskólar eru svo gamlir að allar hugmyndir um skipulag og form hafa verið ræddar innan þeirra.

Í Bandaríkjunum þar sem háskólastarf og vísindi standa í mestum blóma í heiminum eru allar tegundir af háskólum, allt frá ríkis- eða fylkisháskólum til hreinræktaðra einkaskóla og allt þar á milli. Það er ekkert eitt líkan til fyrir háskóla.

Meginmálið er að leyfa fjölbreytninni að ráða ferðinni. Frelsi háskóla til að skipuleggja sig og frjálst val nemenda tryggir frelsi vísindanna. Viðskipta- og hagfræðideild fagnar öðrum skólum á háskólastigi sem kenna viðskiptafræði og sú samkeppni hefur gert öllum gott.

Sjálfseignarstofnanir í Háskóla Íslands

Hinar ellefu deildir Háskóla Íslands eru grunneiningar hans. Til að tryggja sveigjanleika og samkeppnishæfi þarf löggjöf að heimila að deildir Háskóla Íslands geti orðið sjálfstæðar sjálfseignarstofnanir undir regnhlíf Háskóla Íslands.

Form sjálfseignarstofnunar hentar vel í háskólastarfi. Þetta á þó að vera valkvætt þannig að þær deildir sem ekki vilja slíkt gætu eftir sem áður búið við núverandi skipulag. Þær háskóladeildir sem vilja meira sjálfstæði og taka yfir fleiri verkefni til hagsbóta fyrir nemendur, kennara og fræðasviðið verða að fá tækifæri til þess.

Skólagjöld í meistaranámi

Skynsamlegt er að heimila deildum Háskóla Íslands að taka skólagjöld í meistaranámi eins og Viðskipta- og hagfræðideild hefur óskað eftir. Meistaranám er leið að annarri háskólagráðu og því er eðlismunur á slíku námi og grunnámi. Rétt er að hafa í huga að skólagjöld eru lánshæf í Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Það er ekki hægt að líta á það sem hlutverk almannavaldsins að kosta af skattfé að fullu nám til annarrar háskólagráðu. Allt öðru máli gegnir um fyrstu háskólagráðuna en vel er hægt að sjá það fyrir sér að almannavaldið kosti það nám að mestu leyti af almannafé alveg eins og gert er um nám í grunn- og framhaldsskólum. Mikilvægt er að átta sig á því að einn mánuður í leikskóla, sem er fyrsta skólastigið, kostar jafnmikið og eitt ár í Háskóla Íslands.

Aðrir háskólar eiga að fá rannsóknafé

Nú eru vísindi orðin miklu stærri atvinnuvegur en áður. Vísindi eru hluti af skapandi hugsun en skapandi hugsun er einnig aðalsmerki lista. Til skapandi atvinnugreina telst orðið um þriðjungur af störfum í Bandaríkjunum og þetta er þróun sem við eigum að fylgja af fullum krafti.

Blómlegt starf Listaháskóla Íslands er dæmi um þetta en hann er sjálfseignarstofnun á háskólastigi og vegnar vel. Nú starfa tugir einstaklinga í ReykjavíkurAkademíunni sem vinna að rannsóknum af margvíslegum toga. Þetta var ekki veruleikinn fyrir 10 árum.

Við eigum að styrkja rannsóknir, m.a. í nýju háskólunum. Þeir verða að fá betri aðkomu að rannsóknafé og það verður að stórauka framlög í samkeppnissjóði. Hugmyndin um að vísindamenn keppi um rannsóknafé er að mörgu leyti góð en hún er marklaus nema fé til sjóðanna sé aukið verulega.

Háskóli Íslands hefur skyldur sem þjóðskóli

Háskólinn notar líkan til að endurútdeila fé milli deilda Háskólans, svokallað deililíkan. Þessa aðferð á að leggja af og deildir eiga að fá það fé sem ríkisvaldið veitir til þeirra beint.

Háskóli Íslands hefur skyldum að gegna sem þjóðskóli og fjárveitingavaldið á að koma til móts við þær skyldur með því að fjármagna sérstaklega vísindagreinar sem tilheyra þjóðerni okkar í meira mæli en aðrar. Þannig á að fjármagna bókmenntafræði- og málvísindaskor, íslenskuskor, sagnfræðiskor, jarð- og landfræðiskor og guðfræðideild sérstaklega á fjárlögum en ekki af almennu rekstrarfé Háskóla Íslands. Þessar vísindagreinar eru svo stór þáttur af þjóðararfi okkar að þær á að taka út fyrir sviga í fjármögnun.

Háskóli Íslands á að vera regnhlíf fyrir alla háskóla hérlendis

Vitanlega byggjum við ekki upp marga rannsóknaháskóla en það er hægt að tengja skólana betur saman. Háskóli Íslands á að vera regnhlífarsamtök fyrir alla háskóla á Íslandi. Sumir háskólar leggja áherslu á rannsóknir og framhaldsnám, aðrir á starfstengda menntun og enn aðrir á listsköpun og atvinnutengd fræði eins og landbúnaðarháskólarnir. Allir skólarnir ættu að vera aðilar að slíkum regnhlífarsamtökum. Undir þeirri regnhlíf geta verið skólar með fjölbreytt rekstrarform, sumir geta keppt innbyrðis en aðrir unnið saman. Slíkar regnhlífar eru algengar erlendis.

Regnhlífin Háskóli Íslands myndi vinna að því að auka vægi íslensks háskólaprófs erlendis, starfa að gæðamálum, efla nemendaskipti, styðja við góða nemendur í námi og koma rannsóknum á framfæri hérlendis og erlendis.

Samkeppni er góð, einnig meðal háskóla, enda hefur Háskóli Íslands keppt við erlenda skóla í tæpa öld. Samvinna fyrir 300.000 manna þjóð er þó einnig lífsnauðsynleg og slík samvinna á háskólastiginu er öllum til framdráttar, ekki hvað síst nemendum, kennurum og stjórnvöldum.

Aukin menntun er eins og útfærsla landhelginnar

Enn vantar fé til háskólastigsins til að við stöndum jafnfætis næstu þjóðum. Við eigum að setja okkur töluleg markmið í þeim efnum samhliða því að auka sjálfstæði deilda Háskólans og veita öðrum skólum á háskólastigi góðan aðgang að rannsóknafé.

Sókn í menntamálum má líkja við útfærslu landhelginnar á síðustu öld. Aukin menntun er hin nýja landhelgi okkar og við stöndumst ekki í heimi framtíðarinnar nema við höfum aðgang að vel menntuðu fólki alveg eins og við hefðum ekki getað byggt upp okkar góða samfélag nemaöðlast full yfirráð yfir auðlindum hafsins.

Ágúst Einarsson skrifar um háskóla

Höfundur er prófessor í Háskóla Íslands og deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar.